Fjár­mála­ráðu­neytið hyggst hefja vinnu við endur­skoðun á blóma­tollum, í fram­haldi af því að Fé­lag at­vinnu­rek­enda, með stuðningi 25 blóma­verslana, -inn­flytj­enda og -verk­stæða, sendi ráðu­neytinu erindi um lækkun á blóma­tollum í októ­ber. At­vinnu­vega­ráðu­neytið og em­bætti toll­stjóra munu einnig koma að þessari vinnu.

Ólafur Stephen­sen, fram­kvæmda­stjóri Fé­lags at­vinnu­rek­enda, segist fagna þessu. „Það hefur ekkert verið á­kveðið um breytingar á tollum, en ég held að okkur hafi tekist að sýna ráðu­neytinu fram á að nú­verandi kerfi ofur­tolla á blómum er mjög ó­hag­stætt bæði verslunum og neyt­endum, án þess að þjóna endi­lega þeim til­gangi að vernda inn­lenda blóma­fram­leið­endur,“ segir Ólafur. „Það er hægt að gera miklar breytingar í frjáls­ræðis­átt og auka sam­keppni, án þess að það komi niður á hags­munum inn­lendrar fram­leiðslu, en hún hefur tekið miklum breytingum frá því að nú­verandi kerfi verndar­tolla var stillt upp.“

Ólafur Stephen­sen, fram­kvæmda­stjóri Fé­lags at­vinnu­rek­enda.
Fréttablaðið/Anton Brink

Til­lögur Fé­lags at­vinnu­rek­enda til ráð­gjafa­nefndar um inn- og út­flutning land­búnaðar­vara hafa ekki hlotið brautar­gengi að undan­förnu, en FA hefur annars vegar farið fram á að felldir yrðu niður tollar á túlipönum vegna ó­nógs fram­boðs af þeim og hins vegar gert til­lögur til nefndarinnar um að heimildir til að flytja inn tak­markað magn af blómum á lægri tollum, svo­kallaðir toll­kvótar, verði auknar veru­lega. „Nefndin vinnur sam­kvæmt reglu­verki sem er mein­gallað og skilar iðu­lega furðu­legum niður­stöðum um að enginn skortur sé á vörum þegar hann bók­staf­lega blasir við. Nú eru stjórn­völd til í að endur­skoða alla um­gjörð inn­flutnings á blómum og það leiðir vonandi til skyn­sam­legri niður­staðna,“ segir Ólafur.