Nýju frumvarpi, sem fjallar um öryggi 5G kerfa, er ætlað að tryggja að kerfin verði ekki of háð kínverska fyrirtækinu Huawei eða öðrum framleiðendum tæknibúnaðar. Samgönguráðherra segir að Ísland muni fylgja fordæmi Evrópuríkja í öryggismálum til þess að tryggja fjölbreytileika búnaðar í kerfunum. Forstjóri Sýnar gagnrýnir að ákvarð­an­ir ráðuneyta um búnað í fjar­skipta­kerfum verði undan­þegn­ar stjórnsýslureglum.

„Líklegasta leiðin sem við förum í þessum efnum er að fylgja evrópska regluverkinu og horfa sérstaklega til Norðurlanda. Þar hefur verið leit­ast við að tryggja að það séu að lág­marki tveir framleiðendur á bak við fjarskiptakerfið og auk þess hafa verið settar reglur um tiltekinn búnað innan kerfisins sem varðar almanna­varnir og öryggismál,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson sam­göngu­ráðherra í samtali við Markaðinn.

Sigurður Ingi mun á næstu dögum leggja frumvarp fyrir Alþingi sem fjallar meðal annars um öryggishagsmuni í uppbyggingu 5G-kerfa á Íslandi. Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði ákvæði sem byggjast á skýrslu starfshóps og miða að því að tryggja fjölbreytileika tæknibúnaðar í fjarskiptainnviðum.

„Þetta snýst ekki um eitt fyrir­tæki heldur það að tryggja fjöl­breytileika, að við séum ekki of háð tæknibúnaði frá einum fram­leiðanda og að taka tillit til sjón­ar­­miða er varða almannavarnir og þjóðar­öryggi,“ segir Sigurður Ingi, spurður hvort frumvarpið, sem ekki hefur verið birt opinberlega, muni fela í sér að stjórn­völd taki harða afstöðu gegn tilteknum fram­leið­anda, til að mynda Huawei.

Bandarísk stjórnvöld hafa bann­að notkun búnaðar frá Huawei í mikil­­vægum innviðum fjarskipta­kerfa sinna á grundvelli sjónarmiða um þjóðaröryggi. Þau fullyrða að kín­versk stjórnvöld muni nota tök sín á fyrirtækinu til þess að njósna um önnur ríki en Huawei hefur alfarið hafnað þessum fullyrðingum. Bandarísk stjórnvöld hafa einnig lagt bann við kaupum alríkisstofnana á búnaði frá Huawei og reynt að sannfæra bandamenn sína um að takmarka viðskipti við kínverska fyrirtækið.

Afstaða Evrópuríkja hefur verið var­færnari. Hún byggist á því að fram­kvæma áhættumat á fram­leið­­end­um, gera öryggiskröfur um kjarna 5G-kerfanna og setja tak­mörk fyrir hversu stór hluti kerf­is­ins megi koma frá einum fram­leiðanda. Þetta er sú leið sem starfs­­hópurinn taldi helst koma til greina, en jafnframt var lögð áhersla á að til staðar væru skýrar laga­heimildir stjórnvalda í þessum efnum.

Geta misst tíðnina bótalaust

Póst- og fjarskiptastofnun hefur nýlega úthlutað tíðniheimildum fyrir 5G þjónustu til Nova, Símans og Sýnar, sem gilda til ársloka 2021. Í næstu umferð verður úthlutað til lengri tíma, minnst 15 ára, en líklegt er að þá verði gerðar strangari kröfur um búnað í kerfinu að sögn Sigurðar Inga.

„Næstu misseri geta komið fram kröfur sem við munum setja í lög og úthlutun tíðniheimilda gæti þurft að taka mið af þeim. Ef fyrir­tækin, sem nú fá tímabundna tíðni úthlut­aða, sætta sig ekki við þær reglur sem gilda, getur komið til þess að þau fái ekki úthlutaða tíðni að nýju. Og samkvæmt skilyrðum Póst- og fjar­skipta­stofnunar verður það gert bóta­laust,“ segir Sigurður Ingi.

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra.
Fréttablaðið/Ernir

Nýtt 5G-kerfi verður byggt ofan á núverandi kerfi, þ.e.a.s. 4G og 3G, en stóran hluta búnaðar þeirra kerfa má rekja til kínverska fram­leið­andans. Nova og Vodafone hafa byggt sín 4G kerfi upp með bún­aði frá Huawei en Síminn á í við­skiptum við sænska fyrirtækið Ericsson. Spurður hvort stjórnvöld horfi til þess að jafna hlutföll milli framleiðenda segir Sigurður Ingi að það verði ekki endilega niðurstaðan.

„En það er forsenda fyrir fram­tíð­ar­úthlutun 5G-tíðni almennt að a.m.k. tveir birgjar séu á bak við búnaðinn og sérstakar örygg­is­kröfur ef hann er metinn mikil­vægur þjóðaröryggi eða almanna­vörnum,“ ítrekar hann.

Ekki áhyggjur af takmörkunum

Margrét Tryggvadóttir, forstjóri Nova, segir að Nova hafi gert athuga­­semdir við þá fyrirvara sem voru settir um úthlutun tíðni­heim­ilda en eftir samtal við stjórn­völd hafi verið ákveðið að halda áfram uppbyggingu á innviðum. Að­spurð segist hún ekki hafa miklar áhyggj­ur af því að stjórnvöld setji haml­andi takmarkanir á notkun bún­aðar frá Huawei.

„Við trúum því og treystum á að íslensk stjórnvöld gæti sam­keppnis­sjónarmiða og að þetta verði ekki pólitískt. Því miður er umræðan póli­tísk á erlendum vettvangi en stórir þjónustuaðilar úti um allan heim hafa stigið fram og hvatt til sann­gjarnrar umræðu um þessi mál,“ segir Margrét.

Margrét Tryggvadóttir, forstjóri Nova.

Þá bendir Sigurður Ingi á að regluverkið hér á landi, líkt og í Evrópu, sé að þróast í þá átt að fjarskiptafyrirtækjum verði heimilað að samnýta fjarskipta­inn­viði og efna til samstarfs um uppbyggingu þeirra.

Með sam­nýt­ingu og samstarfi verði auðveldara fyrir fyrirtækin að blanda saman ólíkum búnaði og tryggja þannig fjölbreytileika. Nái það fram að ganga hafi stjórnvöld ekki ástæðu til að ætla að kröfur ákvæðisins setji fjarskiptafyrirtækjunum hömlur við frekari uppbyggingu.

Mikið tjón með einu pennastriki

Í frumvarpinu er búið svo um hnútana að ráðuneyti geti tekið ákvarðanir um búnað í fjar­skipta­inn­viðum sem verða undan­þegnar reglum stjórnsýslu­rétt­ar um rökstuðning, umfram tilvísun til þjóðaröryggis, og andmæli. Utanríkisráðuneyti beri ábyrgð á mati þátta er lúta að alþjóðlegri öryggissamvinnu Íslands og varnarmálum. Dómsmálaráðuneyti beri með svipuðum hætti ábyrgð á mati þátta er varða almannaöryggi.

Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar, segir ólýðræðislegt að setja slíkt vald í hendur „ósýnilegra embættismanna“.

„Þetta þýðir að stjórnvöld geta með einu pennastriki lagt bann við notkun á búnaði frá Huawei og látið 5G tíðniheimildir fjarskiptafyrirtækja renna­ út bóta­laust. Einkafyrirtæki sem hafa fjár­fest í uppbyggingu fjar­skipta­kerfa fyrir tugi milljarða króna eru síðan svipt andmælarétti,“ segir Heiðar.

Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar.

Þannig eiga einkafyrirtæki og almenningur á hættu að verða fyrir gríðarlegu tjóni, að sögn Heiðars, ef íslenskir embættismenn láta undan þrýstingi frá bandarískum stjórnvöldum þegar fram sækir. Ekki hafi verið tekið tillit til efnahagslegra afleiðinga í skýrslu starfshópsins, sem var skipaður einum netöryggissérfræðingi og tveimur lögfræðingum.

„Eins skýtur það skökku við að þarna séu tvö ráðuneyti Sjálfstæðisflokksins, sem segir í stofnskrá að hann berjist fyrir frelsi til viðskipta og frelsi einstaklingsins, að ganga þvert gegn því,“ segir Heiðar.