Fjármála- og efnahagsráðuneytið er komið vel á veg komið í undirbúningi á útgáfu skuldabréfs í erlendri mynt. Samkvæmt heimildum Markaðarins hafa íslensk stjórnvöld veitt erlendu bönkunum Barcleys, Citi og Deutsche Bank umboð til að annast útgáfu og sölu 7 ára skuldabréfa í evrum.

Ráðuneytið hefur ásamt Seðlabanka Íslands útbúið fjárfestakynningu fyrir útboðið. Eftir því sem Markaðurinn kemst næst hófust kynningarfundir í morgun og fulltrúar stjórnvalda hafa verið til viðtals við áhugasama fjárfesta.

Áformum ríkissjóðs um erlenda lántöku er meðal annars ætlað að slá á áhyggjur fjárfesta af því að mikil lánsfjárþörf ríkissjóðs á þessu ári muni leiða til verulegrar hækkunar á langtímavöxtum og örva hagkerfið með því að fjölga krónum í umferð þegar ríkissjóður skiptir gjaldeyrinum í Seðlabankanum.

Ekkert liggur enn fyrir um hversu háa lánsfjárhæði ríkið mun sækja sér, það fer eftir markaðsaðstæðum og kjörum, en rætt hefur verið um að útgáfan gæti mögulega verið um einn milljarður evra, jafnvirði um 155 milljarða íslenskra króna.

Lánsfjárþörf ríkissjóðs á árunum 2021 til 2025 er áætluð um 1.000 milljarðar króna. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hefur sagt að hann vilji sjá ríkið sækja sér fjármagn á erlendum mörkuðu.

„Ríkissjóður stendur frammi fyrir mikilli lánsfjárþörf á allra næstu árum – nærri 600 milljarðar á þessu ári og því næsta – og þá hlýtur að koma til greina að hún sé fjármögnuð að hluta með skuldabréfaútgáfu erlendis. Þá er í ljósi þess að við stöndum frammi fyrir skammtímaáfalli, þar sem útflutningstekjur þjóðarbúsins hafa tímabundið dregist mjög mikið saman, einnig eðlilegt að ríkið sæki sér fjármagn erlendis, sem okkur stendur til boða og er á hagstæðum kjörum – ólíkt því sem var eftir fjármálahrunið,“ sagði Ásgeir í viðtali við Markaðinn um miðjan nóvember.

Ásgeir sagði jafnframt að slík útgáfa myndi hafa jákvæð áhrif á gjaldeyrismarkaðinn. „Sá gjaldeyrir sem ríkið myndi sækja færi til Seðlabankans og við gætum meðal annars nýtt hann með því að selja inn á gjaldeyrismarkaðinn sem ætti þá að styrkja gengið. Það er ekki ólíklegt að við munum sjá einhverja gengisstyrkingu á næsta ári sem mun þá tryggja að verðbólgan – sem mælist 3,6 prósent – gangi niður og gefur okkur um leið svigrúm til að beita peningastefnunni með harðari hætti ef þess þarf.“

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins, var spurð hvort ríkið ætti að sækja sér lán erlendis í ýtarlegu viðtali sem birtist í Markaðinum í dag.

„Ég er í engum vafa um að ríkið eigi að fara í stóra skuldabréfaútgáfu erlendis og ég hef verið þeirrar skoðunar að það eigi að gerast fyrr frekar en síðar. Lánskjörin sem bjóðast nú eru mjög góð. Við skulum samt muna að það er best að fara út á markaðinn verandi í sterkri stöðu, þegar við þurfum í raun ekki á lánsfjármagni að halda,“ sagði Lilja.