Hildur Sverrisdóttir, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að full þörf sé á að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis skoði mál Seðlabankans gagnvart Samherja ofan í kjölinn.
„Það er ábyrgðarhluti að eftirlits- og valdheimildum hins opinbera sé ekki mætt af skeytingarleysi – sama hver á í hlut – það verður stanslaust að huga að hver eigi að gæta varðanna,“ sagði Hildur í ræðu á Alþingi í dag.
Nýlega staðfesti Hæstiréttur dóm héraðsdóms um að felld skyldi úr gildi stjórnvaldssekt sem Seðlabanki Íslands lagði á fyrirtækið Samherja fyrir brot á gjaldeyrislögum.
„Áður hafði Gjaldeyriseftirlitið staðið fyrir viðamikilli og mjög áberandi húsleit hjá fyrirtækinu. Seinna tók sérstakur saksóknari við málinu, en hann ákvað að fella niður sakamál vegna þessara meintu brota. Ákvað Seðlabankinn þá að beita stjórnvaldssektum – sem Hæstiréttur hefur nú kveðið á um að skuli felld úr gildi,“ rifjaði Hildur upp.
Hún sagði að lítið hafi farið fyrir hneykslun almennings á málinu. „Kannski er það út af því að okkur er orðið tamt að treysta í blindni hinu opinbera. Kannski er það út af því að þolandinn í málinu er ekki minnimáttar í samfélaginu og þarf því síður stuðning samfélagsmiðlana. Hvorugt er góð ástæða til að vera skeytingarlaus gagnvart hverskyns eftirlitsheimildum og valdbeitingu,“ sagði Hildur.