Hildur Sverrisdóttir, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að full þörf sé á að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis skoði mál Seðlabankans gagnvart Samherja ofan í kjölinn. 

„Það er ábyrgðarhluti að eftirlits- og valdheimildum hins opinbera sé ekki mætt af skeytingarleysi – sama hver á í hlut – það verður stanslaust að huga að hver eigi að gæta varðanna,“ sagði Hildur í ræðu á Alþingi í dag.

Nýlega staðfesti Hæstirétt­ur dóm héraðsdóms um að felld skyldi úr gildi stjórn­valds­sekt sem Seðlabanki Íslands lagði á fyr­ir­tækið Sam­herja fyr­ir brot á gjald­eyr­is­lög­um. 

„Áður hafði Gjaldeyriseftirlitið staðið fyr­ir viðamikilli og mjög áberandi hús­leit hjá fyrirtækinu. Seinna tók sérstakur sak­sókn­ari við mál­inu, en hann ákvað að fella niður saka­mál vegna þess­ara meintu brota. Ákvað Seðlabank­inn þá að beita stjórn­valds­sekt­um – sem Hæstiréttur hefur nú kveðið á um að skuli felld úr gildi,“ rifjaði Hildur upp.

Hún sagði að lítið hafi farið fyrir hneykslun almennings á málinu. „Kannski er það út af því að okkur er orðið tamt að treysta í blindni hinu opinbera. Kannski er það út af því að þolandinn í málinu er ekki minnimáttar í samfélaginu og þarf því síður stuðning samfélagsmiðlana. Hvorugt er góð ástæða til að vera skeytingarlaus gagnvart hverskyns eftirlitsheimildum og valdbeitingu,“ sagði Hildur.