Æðstu stjórnendur Kviku banka og TM hafa á undanförnum vikum átt í viðræðum um mögulega sameiningu félaganna, samkvæmt öruggum heimildum Markaðarins. Rætt hefur verið um helstu skilmála slíkra viðskipta, nú síðast um liðna helgi, en ekki hefur enn náðst samkomulag um undirritun viljayfirlýsingar um að hefja formlegar sameiningarviðræður. Samanlagt markaðsvirði félaganna, sem eru bæði skráð í Kauphöllina, er í dag um 45 milljarðar króna.

Eru viðræðurnar, sem eiga sér nokkurn aðdraganda, sagðar vera tímabundið á ís eins og sakir standa, að sögn þeirra sem þekkja vel til stöðu mála. Á meðal þess sem þær hafa einkum strandað á fram til þessa, eru ólíkar hugmyndir um á hvaða verði félögin yrðu metin við sameiningu. Markaðsvirði Kviku banka er um 19 milljarðar, á meðan TM er nú metið á liðlega 26 milljarða króna.

Í viðræðunum hefur verið lagt upp með, verði af sameiningu félaganna, að viðskiptin færu fram með skiptum á hlutabréfum, frekar en greiðslu reiðufjár, samkvæmt heimildum Markaðarins.

Stærstu hluthafar TM eru fjárfestingafélagið Stoðir, Lífeyrissjóður verslunarmanna, Gildi lífeyrissjóður, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) og félög í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur og fjölskyldu, aðaleigenda Ísfélagsins í Vestmannaeyjum, en hlutur hennar er einkum í gegnum framvirka samninga hjá Íslandsbanka. Lífeyrissjóður verslunarmanna og LSR eru sömuleiðis á meðal umsvifamestu hluthafa í Kviku banka, en stærsti einkafjárfestirinn í eigendahópi bankans, með tæplega 6,8 prósenta hlut, er eignarhaldsfélagið SNV í eigu Svanhildar Nönnu Vigfúsdóttur, en hún var um árabil einn stærsti hluthafi og stjórnarformaður VÍS.

Náin tengsl eru á milli margra stjórnenda og helstu hluthafa félaganna. Þannig eru Stoðir, stærsti hluthafi TM með 11,7 prósenta hlut, hluthafar í breska fasteignalánafélaginu Ortus Secured Finance ásamt Kviku banka. Stoðir eru meðal annars í eigu félaga á vegum Jóns Sigurðssonar, stjórnarformanns Stoða, Einars Arnar Ólafssonar, fyrrverandi forstjóra Skeljungs og stjórnarmanns í TM, og Örvars Kjærnested, fjárfestis og stjórnarformanns TM.

Sigurður Viðarsson, forstjóri TM, og Ármann Þorvaldsson, aðstoðarbankastjóri Kviku banka, sögðust ekki geta tjáð sig um málið í samtali við Markaðinn.

Hagnaður TM á árinu 2019 nam 1.866 milljónum króna eftir skatta. Afkoman var drifin áfram af fjárfestingatekjum upp á 2.945 milljónir króna, sem jafngilti rúmlega 10 prósenta ávöxtun á eignasafn félagsins, á meðan framlegð af vátryggingastarfsemi var neikvæð um 308 milljónir á árinu. Hagnaður Kviku banka, sem var með heildareignir í stýringu að fjárhæð 426 milljarða króna í árslok 2019, var hins vegar 2.660 milljónir eftir skatta í fyrra og var arðsemi bankans á eigin á fé um 21 prósent.

Marinó Örn Tryggvason, bankastjóri Kviku, en bankinn hefur orðið til úr sameiningum fjölmargra fjármálafyrirtækja á undanförnum árum.
Ljósmynd/Kvika

Stjórnendur TM og Kviku hafa í viðræðunum horft til þess að samlegðaráhrifin af mögulegri sameiningu yrðu meðal annars þau, að hægt væri að skjóta breiðari stoðum undir tekjugrunn félaganna. Með stærra og öflugra sameinuðu félagi, sem fjárfestar kynnu að verðmeta á hærra verði á markaði, stæðu einnig líkur til þess að hægt yrði að ná fram lækkun fjármagnskostnaðar með betri vaxtakjörum, og sömuleiðis væri ljóst að sparnaður fengist í rekstrarkostnaði.

Starfsemi félaganna er um margt talsvert ólík. Kvika banki, sem hefur orðið til úr sameiningu fjölmargra fjármálafyrirtækja á undanförnum árum, skilgreinir sig sem sérhæfðan fjárfestingabanka, sem leggi áherslu á eignastýringu fjárfestingastarfsemi. Með kaupum TM á eignaleigufyrirtækinu Lykli, sem gengu í gegn í janúar á þessu ári, bættist þriðja stoðin undir starfsemi tryggingafélagsins, ásamt vátryggingarstarfsemi og fjárfestingum.

Samkvæmt viðmælendum Markaðarins, sem þekkja vel til viðræðna félaganna að undanförnu, er ljóst að stjórnendur TM horfa einkum til þeirrar samlegðar sem myndi fást, með því að renna Lykli saman við þá bankastarfsemi sem er fyrir hendi innan Kviku banka. Yfirlýst áform TM hingað til hafa verið að sækjast eftir viðskiptabankaleyfi fyrir Lykil, þannig að félagið, sem hefur að stærstum hluta verið að bjóða upp á fjármögnun bíla og atvinnutækja, geti farið að byrja að bjóða upp á innlán.