Stjórnarmenn og tveir íslenskir stjórnendur Klakka, eignarhaldsfélags sem seldi fyrr á árinu 100 prósenta hlut sinn í eignaleigufyrirtækinu Lykli, munu fá samtals um 310 milljónir króna í bónusa vegna árangurs við sölu á eignum félagsins á undanförnum árum. Bónusgreiðslur til fimm manna stjórnar Klakka, tveggja Íslendinga og þriggja Breta, nema að meðaltali um 50 milljónum króna á mann.

Tillaga um bónusgreiðslurnar, sem var lögð fram af Burlington Loan Management, félagi í eigu bandaríska vogunarsjóðsins Davidson Kempner, var samþykkt á aðalfundi Klakka síðastliðinn mánudag, samkvæmt heimildum Markaðarins. Sjóðurinn er langsamlega stærsti hluthafi Klakka með um 92 prósenta hlut. Birta lífeyrissjóður, fjórði stærsti hluthafi Klakka með um 0,8 prósenta hlut, var eini hluthafinn sem greiddi atkvæði gegn tillögunni.

Greint frá því í Markaðinum í desember 2017 að hluthafafundur Klakka hefði samþykkt tillögu að kaupaukakerfi fyrir þáverandi stjórnarmenn og stjórnendur félagsins. Hefðu bónusgreiðslurnar getað numið allt að 550 milljónum króna að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Áform félagsins vöktu hörð viðbrögð, meðal annars af hálfu verkalýðsfélaga, og daginn eftir að frétt Markaðarins birtist ákvað stjórn Klakka að mæla með því að greiðslurnar yrðu dregnar til baka. Var það sagt nauðsynlegt til að skapa traust í garð félagsins og var sú tillaga samþykkt af hluthöfum í mars 2018.

Rúmlega tveimur árum síðar hafa hins vegar upphafleg áform um bónusa til handa lykilstjórnendum félagsins verið endurvakin. Til stendur að inna greiðslurnar af hendi á þessu ári eða síðar.

Bónusgreiðslur til stjórnarmanna Klakka nema samtals rúmlega 1,6 milljónum evra, jafnvirði um 250 milljóna íslenskra króna á núverandi gengi. Þá stendur til að greiða tveimur stjórnendum Klakka, Brynju Dögg Steinsen rekstrarstjóra og Jóni Erni Guðmundssyni forstjóra, að auki samtals 293 þúsund evrur, jafnvirði 46 milljóna króna, í bónusa. Samkvæmt ársreikningi Klakka fyrir árið 2019, sem var lagður fyrir aðalfund félagsins á mánudag, námu launagreiðslur til stjórnar og tveggja starfsmanna félagsins samtals um 89 milljónir króna.

Stjórnarformaður Klakka er Matthew Hinds, meðeigandi hjá breska ráðgjafarfyrirtækinu THM Partners, en hann var um langt skeið einn helsti ráðgjafi erlendra kröfuhafa föllnu bankanna. Aðrir stjórnarmenn eru Joy McAdam, fyrrverandi stjórnandi hjá Royal Bank of Scotland, Anthony Place, meðeigandi hjá THM, Steinn Logi Björnsson, fyrrverandi forstjóri og aðaleigandi Bláfugls, og Gunnar Þór Þórarinsson, hæstaréttarlögmaður og meðeigandi á lögmannsstofunni BBA/Fjeldco.

Stærsti eigandi Klakka er sem fyrr segir vogunarsjóðurinn Davidson Kempner, í gegnum írska félagið Bur­lington Loan Management og eignarhaldsfélagið BLM Fjárfestingar, en hann var á meðal stærstu kröfuhafa föllnu bankanna. Sá sem hefur stýrt umsvifum sjóðsins hér á landi allt frá fjármálahruninu 2008 er Bretinn Jeremy Lowe. Eini lífeyrissjóðurinn sem eftir er í hluthafahópi Klakka er Birta, en aðrir sjóðir seldu bréf sín í félaginu á árinu 2018. Þá seldu einnig félög á vegum viðskiptafélaganna Sigurðar Valtýssonar, fyrrverandi forstjóra Exista, og bræðranna Ágústar og Lýðs Guðmundssona, sem oftast eru kenndir við Bakkavör, samanlagt um sjö prósenta hlut sinn í Klakka vorið 2019 til Davidson Kempner. Fyrir söluna voru þeir næststærstu hluthafar Klakka.

Við söluna á Lykli til TM fyrir samtals 9,25 milljarða króna, en kaupin gengu endanlega í gegn í ársbyrjun 2020, hefur Klakki lokið við sölu á öllum eignum félagsins. Á meðal annarra eigna sem Klakki hefur selt á undanförnum árum má nefna hluti í VÍS, Símanum og Bakkavör.