Niðurstöður Gallup könnunar fyrir Samtök atvinnulífsins og Seðlabanka Íslands meðal stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins gefa til kynna óbreytt umsvif í atvinnulífinu á næstunni. Mat stjórnenda á núverandi stöðu í atvinnulífinu er sæmilegt og væntingar um að staðan versni ekki mikið á næstu sex mánuðum.

Greint er frá niðurstöðum könnunarinnar á vef Samtaka atvinnulífsins en hún hefur verið gerð ársfjórðungslega frá árinu 2006. Lítill skortur er á starfsfólki á almennum vinnumarkaði og útlit fyrir áframhaldandi fækkun starfa næstu sex mánuði. Stjórnendur vænta óbreyttrar eftirspurnar á innlendum markaði en aukinni eftirspurn á erlendum mörkuðum. Verðbólguvæntingar stjórnenda eru við markmið Seðlabankans, þ.e. 2,5 prósent næstu 12 mánuði.

Vísitala efnahagslífsins, sem endurspeglar mun á fjölda stjórnenda sem meta aðstæður góðar og slæmar, breytist lítið frá síðustu könnun. Um 30 prósent stjórnenda telja aðstæður góðar í atvinnulífinu en 15 prósent telja þær slæmar. Matið er lakast í ferðaþjónustu og byggingariðnaði.

Aðstæður verða ekki betri eftir sex mánuði að mati stjórnenda. Telja 28 prósent stjórnenda að aðstæður batni en 27 prósent að þær versni.

Starfsmönnum gæti fækkað um 600

Lítill skortur er á starfsfólki. Einungis 13 prósent stjórnenda finna fyrir skorti sem er svipað og fyrir ári síðan. Skortur á starfsfólki er mestur í ýmissi sérhæfðri þjónustu.

24 þúsund starfsmenn starfa hjá fyrirtækjunum í könnuninni. 14 prósent fyrirtækjanna búast við fjölgun starfsmanna en 24 prósent við fækkun á næstu sex mánuðum.

Ætla má að starfsmönnum fyrirtækjanna í heild fækki um 0,5 prósent á næstu sex mánuðum sem er sama niðurstaða og fyrir þremur mánuðum. Sé niðurstaðan yfirfærð á allan almenna vinnumarkaðinn gæti störfum fækkað um rúmlega 600 á næstu sex mánuðum. Fjölgunin er tæplega 1.100 hjá þeim sem áforma fjölgun en fækkunin rúmlega 1.700 hjá þeim sem áforma fækkun.

Stjórnendur byggingarfyrirtækja sjá fram á mesta fækkun starfsmanna en verslun kemur þar á eftir. Fækkun starfa virðist framundan í flestum atvinnugreinum nema ýmissi sérhæfðri þjónustu.

Vænta verðbólgu við markmið

Verðbólguvæntingar stjórnenda eru stöðugar og búast þeir við verðbólgu við markmið Seðlabankans að ári liðnu. Stjórnendur vænta þess að verðbólgan verði 3,0 prósent eftir tvö ár.

Þá búast stjórnendur við svipaðri innlendri eftirspurn á næstu 6 mánuðum og verið hefur undanfarið. 22 prósent stjórnenda búast við aukningu, 19 prósent búast við samdrætti, en aðrir óbreyttri eftirspurn. Horfur eru betri á erlendum mörkuðum því 32 prósent stjórnenda búast við aukinni eftirspurn þar en 13 prósent við samdrætti.

Í úrtaki voru 422 fyrirtæki sem teljast stærst á landinu miðað við heildarlaunagreiðslur og svöruðu 211, þannig að svarhlutfall var 50 prósent.