Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, bendir á að samkeppni fyrirtækja um að selja góðar vörur eða góða þjónustu á samkeppnishæfu verði hafi verið ein af undirstöðum árangurs Vesturlanda um aldir. Í enskumælandi löndum hafi hins vegar verið áberandi þróun í áttina að því að fyrirtæki líti á sig sem pólitískar stofnanir og aðeins tímaspursmál hvenær sú þróun berist til Íslands.

„Stórfyrirtæki hafa verið að hverfa frá meginhlutverki sínu sem hefur slæm áhrif á neytendur, á hagsæld og einnig á samfélagið vegna þess að eitt af því sem fyrirtæki eiga alls ekki að gera er að fara í manngreinarálit. Það er ískyggileg þróun þegar fyrirtæki byrja að haga viðskiptum sínum eftir kyni, litarhafti eða öðru,“ segir Sigmundur Davíð í umfjöllun Markaðarins um aukningu í því að íslensk fyrirtæki taki afstöðu til samfélagsmála.

Mæta seint á vígvöllinn

„Það er margt áhugavert við það sem er að gerast. Eitt af því er að fyrirtæki taka upp málstað sem hefur orðið ofan á hjá þeim sem eru ráðandi í samfélagsumræðunni. Stundum virðist þeim jafnvel vera sama um viðhorf hefðbundinna viðskiptavina sinna. Þetta tekur oft á sig undarlegar birtingarmyndir,“ segir Sigmundur Davíð.

Stundum virðist þetta bara snúast um að teika vagninn. Hann nefnir breskan matvælarisa sem ákvað að setja regnbogafánann á umbúðir nokkuð hefðbundinnar samloku og markaðssetja hana sem LGBT-samloku.

„Maður veltir fyrir sér hvernig það horfir við þeim sem hafa barist áratugum saman fyrir réttindamálum þegar fyrirtæki skreyta sig með stolnum fjöðrum og nota þann árangur sem hefur náðst til að selja vörur. Þegar þau mæta seint á vígvöllinn en taka upp fánann og þykjast eiga þátt í sigrinum,“ segir Sigmundur Davíð.

„Þessir stjórnendur eru oft í samkvæmisklúbbum sem eru ekki í tengslum við samfélagið“

Hver er ástæðan að baki þessari þróun að þínu mati?

„Ég held að þetta sé ein afleiðingin af því að við nútímamennirnir erum farnir að líta á lífsgæðin sem sjálfgefinn hlut. Þar af leiðandi leyfum við okkur að snúa okkur að öðrum markmiðum. Grundvallargildin sem bjuggu þetta allt til eru þá vanrækt fyrir vikið,“ segir Sigmundur Davíð.

„Og hugsanlega má að einhverju leyti rekja þessa þróun til þess að fólkið sem stýrir markaðssviðum eða starfsmannasviðum, og jafnvel ungir framkvæmdastjórar, hafi komið beint úr háskólaumhverfi þar sem þessi viðhorf eru hin ríkjandi trúarbrögð. Þarna er það komið í aðstöðu til að „boða trúna“, ef svo má segja, sem er mikill misskilningur á hlutverkinu. Þessir stjórnendur eru oft í samkvæmisklúbbum sem eru ekki í tengslum við samfélagið og finnst ekki nógu merkilegt að vinna bara við að selja góða vöru eða veita góða þjónustu á samkeppnishæfu verði,“ segir Sigmundur Davíð og vísar í orð hagfræðingsins Joseph Schumpeter.

„Þegar fyrirtæki breytast í stofnanir eða skrifræði, og verða rekin á þeim forsendum frekar en á forsendum frumkvöðulsins, þá hafa þau lagt grunninn að eigin eyðileggingu.“