Alþingi afgreiddi í vikunni neyðarlán til Íslandspósts upp á 1,5 milljarða króna. Ástæða fyrir rekstrarvandræðum póstsins er tiltölulega einföld, en samkvæmt alþjóðasamningi ber félaginu að niðurgreiða póstsendingar frá þróunarlöndum um 70 til 80 prósent. Því miður fyrir forsvarsmenn póstsins, þá telst Kína meðal þróunarlanda samkvæmt samningnum og uppgangur þarlendra netverslana hefur því leitt til stórkostlegrar útgjaldaaukningar. Alibaba er með öðrum orðum að sliga Íslandspóst.

Þetta er þó ekki eina ástæða rekstrarvanda Íslandspósts. Fjárfestingar félagsins hafa einnig vakið nokkra athygli en meðalfjárfesting á ári undanfarin tíu ár nemur um 700 milljónum króna. Frá 2006 hefur Íslandspóstur varið rúmlega 5,8 milljörðum króna í fjárfestingar í fasteignum, lóðum, áhöldum, tækjum og bifreiðum. Á móti hafa eignir fyrir rúmar 600 milljónir króna verið seldar. Nettófjárfesting á tímabilinu er því rúmir fimm milljarðar króna samkvæmt ársskýrslum fyrirtækisins á verðlagi hvers árs fyrir sig. Mikið launaskrið hefur sömuleiðis verið hjá félaginu. 

Nú er það í sjálfu sér ekkert nýtt að rekstur póstþjónustu sé óarðbær á tímum verslunar á netinu. Þannig hefur Trump Bandaríkjaforseti gagnrýnt Amazon harðlega fyrir að láta þarlenda póstþjónustu niðurgreiða pakkasendingar sínar. Á Íslandi, litlu örríki þar sem ýmiss konar verslun og þjónusta á undir högg að sækja, magnast þessi vandi upp enn frekar. Þetta fyrirkomulag veldur því beinlínis að innlend verslun þarf að keppa við niðurgreidda þjónustu erlendra keppinauta. Sama gildir um einkaaðila sem kynnu að vilja veita Íslandspósti samkeppni um bögglasendingar. Auðvitað keppa þeir ekki við niðurgreiddar sendingar hjá Íslandspósti. 

Þetta er raunar ekki eina dæmið um að ríkið sé í óþarfa samkeppnisrekstri. Fjölmiðlar þurfa þannig að búa við óbærilega samkeppni frá RÚV, og fjarskiptafyrirtæki við að Gagnaveitan leggi línur og kapla við hlið innviða einkafyrirtækjanna. Hvað póstþjónustu varðar er hins vegar gengið skrefinu lengra, og ríkisaðstoðin nær út fyrir landsteinana. Nógu erfið er samkeppnisstaða Íslands þó í alþjóðavæddum heimi þó ekki bætist við niðurgreiðsla ríkisins í þágu erlendra keppinauta íslenskra fyrirtækja.

Vonandi er þetta eina lánið sem þarf að veita Íslandspósti, og í millitíðinni beiti ríkið sér fyrir því að uppræta þetta fáránlega ástand á póstþjónustumarkaði.