Athyglisvert hefur verið að fylgjast með forsvarsmönnum stéttarfélaganna og kjarabaráttu þeirra. Orðfæri eins og það sem þau viðhafa hefur ekki heyrst lengi. Fólki er óhikað skipt í fylkingar og það kallað nöfnum sem á flestum heimilum teldust dónaskapur. Auðvitað er í lagi að berjast fyrir sínum málstað og sitt sýnist vitanlega hverjum. Þegar Kolbrún Bergþórsdóttir, heiðarleg blaðakona til áratuga, er hins vegar orðin að ‘húsþræl’ þá er hins vegar sennilegt að of langt hafi verið gengið. Hvað varð um almennar kurteisisreglur í samskiptum? 

Helsti hugmyndafræðingur fylkingarinnar er uppgjafakapít­alisti sem á árum áður bar ábyrgð á mesta fjáraustri í sögu íslenskrar fjölmiðlunar með síbyljustöðinni NFS og danska fríblaðinu Nyheds­avisen. Síðar varð hann frægur að endemum fyrir að greiða ekki starfsmönnum sínum á Fréttatímanum laun á lokametrum þess ævintýris. Hann er þegar farinn að senda sínum nýju félögum reikninga, væntanlega eru þeir eilítið hærri en lægstu launin.

En það er ekki bara orðfæri nýju verkalýðsstéttarinnar sem er gamaldags heldur kröfugerðin sömuleiðis. Þeir sem bundu vonir við að nýju fólki fylgdu nýjar hugmyndir hafa sennilega orðið fyrir vonbrigðum. Kröfugerðin hljóðar, eins og í gamla daga, upp á krónur og aura. En getur verið að mesta kjarabót skjólstæðinga hinnar nýju verkalýðsforystu felist í öðrum og metnaðarfyllri aðgerðum? 

Sigurður Pálmi Sigurbjörnsson kaupmaður benti á það í blaðagrein í vikunni að laun eru í raun eini stóri útgjaldaliður fyrirtækja á Íslandi sem ekki er verðtryggður. Kerfið eins og það er uppbyggt í dag býður því beinlínis upp á að bil skapist milli launa og kaupmáttar. Atvinnurekendur græða vitaskuld á þessu á fyrstu stigum hagsveiflunnar en að endingu kemur að skuldadögum og þá með látum. Þetta er akkúrat raunin í dag. Verkalýðsforystan fer fram með sínar kröfur við enda hagsveiflunnar þegar harðnað hefur á dalnum hjá mörgum fyrirtækjum. Svigrúmið er einfaldlega ekki til staðar. Auðvitað er bara ein lausn til við þessu ójafnvægi. Afnám verðtryggingar með upptöku annars gjaldmiðils. Í því felst besta kjarabót íslensks verkafólks til lengri tíma. Hið nýja forystufólk virðist hins vegar of upptekið af fúkyrðaflaumnum til að sjá skóginn fyrir trjánum.