Fjármálamarkaðir hafa nötrað undanfarna daga eftir enn ein tíðindin af væntum samruna Icelandair og WOW air. Icelandair tilkynnti á mánudag að ekki væri unnt að aflétta skilyrðum vegna samrunans í tæka tíð fyrir hluthafafund félagsins sem fram fer nú á föstudag.

Á meðan er rekstrarstaða WOW enn afar erfið, þótt fram hafi komið í fjölmiðlum að nægt rekstrarfé sé að minnsta kosti fram yfir næstu mánaðamót. Forstjórinn sjálfur virðist meta stöðuna svo að reksturinn hafi versnað töluvert frá hausti ef marka má tilkynningu sem hann sendi þátttakendum í skuldabréfaútboði WOW sem lauk í september. Við það bætist að WOW hefur losað sig við fjórar vélar.  

Utan frá er staðan því nokkuð tvísýn og því ekki nema von að órói sé á markaði. Nær öll skráð félög féllu í verði á markaði í gær, og væringar voru sömuleiðis á skuldabréfamarkaði. Þetta er auðvitað ekki annað en birtingarmynd af ótta fjárfesta við það sem koma skal. Í því ljósi er athyglisvert að velta stöðunni fyrir sér. WOW flytur þriðja hvern farþega til landsins, og er stór atvinnurekandi, einkum á Suðurnesjum. Þess utan eru margir sem eiga störf sín undir því að ferðamenn skili sér til landsins. Afleidd störf skipta sennilega hátt í tug þúsunda. 

 Fall WOW gæti því haft mikil áhrif á efnahagsástandið á Íslandi. Krónan myndi sennilega veikjast verulega umfram það sem þegar er orðið. Eignaverð myndi lækka, að minnsta kosti tímabundið, og efnahagslegum stöðugleika í landinu stemmt í tvísýnu til skamms tíma. 

 Af þessum ástæðum ríður á að þeir sem koma að borðinu í þessum viðræðum, hvort sem er af hendi aðila málsins, eftirlitsaðila eða jafnvel stjórnvalda, beiti almennri skynsemi í nálgun sinni. Mjúk lending hjá WOW er nefnilega ekki bara einkamál þeirra sem af málinu hafa beina hagsmuni. Í því samhengi má minna enn og aftur á þá staðreynd að íslenska ríkið hefur áður lagt Ice­landair og forverum þess félags lið þegar á þurfti að halda, til dæmis Í kjölfar hryðjuverkaárásanna 11. september 2001. Ríkisinngrip á flugmarkaðinn eru því ekki óþekkt stærð á Íslandi, og verðmiðinn í þessu tilviki er ekki hár í stóra samhenginu.