Fyrir liggur úttekt Innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar á starfsmannamálum Orkuveitu Reykjavíkur. Niðurstaðan er eitt, og umfjöllunin sem hún hefur fengið innan og utan Orkuveitunnar allt annað. Eðlilegt er að spurt sé hvort stjórnendur hafi getað einbeitt sér að því sem mestu máli hlýtur að skipta undanfarna mánuði. Sjálfum rekstrinum. Stjórn OR tók lán á síðustu dögum 2016 á óhagstæðari kjörum en félaginu almennt býðst til þess að uppfylla skilyrði um veltufjárhlutfall svo greiða mætti arð út úr félaginu. Þótt félagið hafi lækkað skuldir sínar talsvert hefur það verið gert með því að velta enn frekari byrðum yfir á borgarbúa; hækkun gjaldskrár, frestun innviðafjárfestinga og lántökum úr borgarsjóði.

Stjórn félagsins, með formann bankaráðs Seðlabankans fremstan í flokki, hefur verið dugleg að hrósa sjálfri sér og stjórnendum fyrir fádæma afrek í rekstri. Ef önnur fyrirtæki byggju við þann lúxus að geta endalaust sótt sér fé í vasa viðskiptavinanna, væri staðan önnur. Sú er ekki raunin, og því lenda fyrirtæki í rekstrarvandræðum. Sannleikurinn er að eina tiltektin sem átti sér stað í Orkuveitunni eftir hrun var að pína borgarbúa enn frekar. Engin sérstök tilraun til rekstrarhagræðis var gerð. Stöðugildum hefur fjölgað og meðallaun starfsfólks eru áfram með því hæsta sem gerist. Nú þegar eitthvert svigrúm virðist vera að skapast í rekstrinum á að sólunda því og greiða stjórnmálamönnum arð í stað þess að lækka gjaldskrár.

Með þetta að leiðarljósi var athyglisvert að heyra bráðabirgðaforstjóra OR gefa rekstri félagsins hæstu einkunn örfáum klukkustundum eftir að hún tók við störfum. Við blasir að á þeim tíma hafði hún annaðhvort ekki kynnt sér reksturinn eða hún hafi hreinlega ekki meiri rekstrarreynslu en ummælin gáfu til kynna. Raunar benda ummæli hennar í kjölfar útgáfu skýrslunnar góðu til þess síðarnefnda. Nú síðast sakaði hún eiginmann fyrrverandi starfsmanns félagsins um að hafa gert tilraun til að kúga félagið með því að gera ýtrustu kröfur fyrir hönd eiginkonunnar. Forstjórinn hefur miðað við það ekki mikla reynslu af viðskiptum, en þar er daglegt brauð að menn fari fram með slíkar kröfur, sem gagnaðilanum er einfaldlega frjálst að hafna.

Liggur ekki í augum uppi að bráðabirgðaforstjóranum var falið að kæfa mál í fæðingu sem var borgarstjórnarmeirihlutanum erfitt? Kannski tókst henni það hvað varðar vinnustaðamenninguna. Reksturinn talar hins vegar fyrir sig sjálfur. Þar er víða pottur brotinn.