Með tilkomu internetsins hafa ýmsir sjálfskipaðir spekúlantar leyft sér að rýna í framtíðina. Hefðbundnar verslanir eiga undir högg að sækja, enda hægt að nálgast nánast hvað sem er með músarsmelli á netinu.

Ein hlið á þessu er sýnileg á gangi um borgir. Verslunarhúsnæði sem áður þótti eftirsóknarvert stendur autt. Í nærumhverfinu nægir að nefna horn Laugavegs og Skólavörðustígs, og Bankastrætið.

Úti í heimi er sama saga sögð. Fyrirtæki sem áður voru blómleg leika nauðvörn. Standa frammi fyrir því að fækka verslunum eða deyja út. Gamalgrónir risar eins og House of Fraser og fleiri hafa lotið í gras. Arcadia, sem er í eigu Phillips Green og rekur meðal annars Topshop, virðist á síðustu metrunum.

Er skýringin virkilega svo einföld að fólk vilji einungis versla á netinu í dag? Auðvitað ekki. Fólk mun alltaf vilja upplifa verslun á eigin skinni. Snerta og þefa af vörunni. Sjá mann og annan.

Í því samhengi er athyglisvert að skoða afdrif gömlu góðu bókarinnar. Fyrir fáum árum virtist allt benda til þess að rafbækur myndu ganga að bókabúðinni dauðri. Hefðbundnir bóksalar börðust í bökkum. Hinum rótgróna breska bóksala Waterstones var bjargað fyrir horn á elleftu stundu.

Þá urðu straumhvörf. Sala hefðbundinna bóka tók að vaxa. Hlutfall rafbóka hætti að vaxa. Í Bretlandi hefur, frá 2015, orðið lítilsháttar söluaukning á hefðbundnum bókum á hverju ári. Hlutfall rafbóka hefur verið fast í tæplega fjórðungi heildarsölu.

Breskir bóksalar, með Water­stones í broddi fylkingar, virðast hafa fundið hinn gullna meðalveg. Bókabúðirnar eru á ný orðnar samkomustaðir. Hver Water­stones-verslun er einstök. Áfangastaður frekar en verslun. Aðrir bóksalar hafa farið sömu leið.

Nú berast tíðindi af því að Waterstones hafi keypt hina rótgrónu bandarísku keðju Barnes & Noble. Flytja á breska módelið vestur um haf.

Dæmið af Waterstones og bókinni er góð fyrirmynd fyrir þá sem berjast fyrir tilverurétti sínum í breyttum heimi. Þróast eða deyja.

Stjórnarmaðurinn er sigldur innherji með puttann á púlsinum. Stjórnarmaðurinn skrifar í Markaðinn í Fréttablaðinu á miðvikudögum og liggur ekki á skoðunum sínum um menn og viðskiptaleg málefni.