Nýverið var skipt um æðstu stjórnendur í Arion banka. Augljóslega er um kaflaskipti í lífi bankans að ræða. Fráfarandi forstjóri var við störf allt að því frá hruni. Við taka menn sem getið hafa sér gott orð í fjármálageiranum á eftirhrunsárunum. Nýir vendir sópa best, hugsa stjórnarmenn vafalaust. Ekki veitir af.

Ríflega fjögur þúsund manns starfa hjá fjármálafyrirtækjum á Íslandi, rétt um 20% færri en þegar mest var árið 2007. Stærð bankakerfisins er einungis brot af því sem það var á árunum fyrir hrun. Auðvitað voru ástæður fyrir því að bankastarfsmönnum fækkaði ekki hraðar en raun bar vitni strax eftir hrun. Bankarnir voru allir skyndilega í ríkiseigu og hagsmunir hins nýja eiganda ekki einungis þeir að skila ábatasömum rekstri. Stórkostlegt atvinnuleysi í fjármálageiranum hefði beinlínis haft skaðleg áhrif á efnahagsbata eftir áfallið 2008.

Nú er staðan önnur. Tveir bankar eru enn í ríkiseigu, Landsbankinn og Íslandsbanki. Arion er eini einkarekni viðskiptabankinn, þótt stundum sé erfitt að greina það þegar litið er til umfangs starfseminnar og þess sem kostað er til. Raunar mætti halda að Landsbankinn væri einkabankinn sé litið til rekstrarkostnaðar.

Við þessa, að mörgu leyti skiljanlegu, bankaoffitu bætast svo hraðar tækninýjungar í geiranum. Fjártæknibyltingin hefur þegar gert marga starfsmenn óþarfa. Sú þróun mun halda áfram og áger­ast. Í því samhengi hljóma áform um nýjar höfuðstöðvar Landsbankans hjákátlegar. Hvaða fólk eiga þessi húsakynni að hýsa?

Hjá Arion einum starfa um átta hundruð manns. Samkvæmt öllum mælikvörðum er það allt of mikið. Bankinn glímir sömuleiðis við menningarvanda sem ekki verður leystur á einni nóttu. Nýir stjórnendur eru fengnir til að leysa úr þessum viðfangsefnum og vissulega eru þau ærin. Þeir hafa erft fitubita sem ekki er ákjósanlegur til annars en djúpsteikingar. Skera þarf þá fitu af og gera bankann tilbúinn til að takast á við verkefni samtíðarinnar.

Nauðsynlegt er að þeir, og aðrir í bankageiranum, fái vinnufrið til nauðsynlegra aðgerða. Þær verða ekki sársaukalausar, en viðskiptalífi og samfélagi til bóta þegar öllu er á botninn hvolft.