Evrópskt fyrirtæki sem starfar á sviði greiðsluþjónustu, sem er meðal annars í eigu og stýrt af Ali Mazanderani, stjórnarmanni í Creditinfo Group, er annað þeirra félaga sem eiga nú í viðræðum við Íslandsbanka um kaup á öllu hlutafé Borgunar, samkvæmt heimildum Markaðarins.

Mazanderani, sem hefur setið í stjórn Creditinfo Group frá því síðasta vor, er sjálfstætt starfandi fjárfestir en hann situr í stjórnum fjártæknifyrirtækja víða um heim, svo sem Network International í Bretlandi, Paycorp í Suður-Afríku og Stone í Brasilíu.

Hann tók sæti í stjórn Creditinfo Group síðasta vor í kjölfar þess að breski fjárfestingasjóðurinn Actis, sem hann starfaði á þeim tíma fyrir, jók við hlut sinn í íslenska félaginu úr tíu prósentum í tuttugu prósent. Sem meðeigandi í Actis, sem fjárfesti upphaflega í Creditinfo árið 2016, kom Mazanderani að fjölmörgum fjárfestingum, einkum á sviði fjártækni, í yfir sextíu ríkjum og vaxtarmörkuðum.

Ali Mazanderani, fjárfestir og stjórnarmaður í Creditinfo Group.

Eins og greint var frá í Markaðinum fyrr í mánuðinum eru viðræður um kaup á öllu hlutafé Borgunar langt komnar en Íslandsbanki, sem á 63,5 prósenta hlut í greiðslumiðlunarfyrirtækinu, hefur verið með hlut sinn í söluferli frá því í byrjun árs 2019.

Samkvæmt heimildum Markaðarins hafa viðræður staðið yfir við tvö erlend félög en í þeim er gert ráð fyrir að kaupverðið fyrir Borgun verði í kringum sjö milljarðar króna. Tekið var fram í nýlegum ársreikningi Íslandsbanka fyrir síðasta ár að viðræður við hugsanlega kaupendur væru hafnar en hins vegar væri það enn háð töluverðri óvissu hvort af sölu yrði.

Borgun tapaði 972 milljónum króna á síðasta ári borið saman við 1.069 milljóna króna tap á árinu 2018.