Stjórn Kviku banka samþykkti í dag endurkaupaáætlun á eigin bréfum bankans. Miðað við gengið við lok markaða í dag væri um kaup fyrir 2,6 milljarða króna að ræða.

Heimildin nær til endurkaupa allt að 117.000.000 hluta eða um 2,5 prósent af útgefnu hlutafé, að undangengnu samþykki frá Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands. Síðar á árinu verður metið hvort farið verði í endurkaup á þeim 2,5% hlutafjár sem eftir standa af heimild aðalfundar 2021. Þetta kemur fram í uppgjöri fjármálafyrirtækisins.

„Samstæðan er fjárhagslega sterk með góðan rekstur sem hvílir á mörgum stoðum. Mikil tækifæri felast í því að auka markaðshlutdeild félagsins. Það er ekki algengt að fjárhagslega sterkt félag hafi litla markaðshlutdeild í flestum þjónustuþáttum og í því felast margvísleg tækifæri til vaxtar. Unnið er að undirbúningi útvíkkunar þjónustu fyrir einstaklinga og ég vænti þess að viðskiptavinir félagsins muni upplifa að samkeppni aukist á fjármálamarkaði,“ segir Marinó Örn Tryggvason forstjóri Kviku.