Tilboði bandarísku athafnakonunnar Michele Roosevelt Edwards Ballarin upp á sjö milljarða króna sem hún skilaði inn í hlutafjárútboði Icelandair Group í gær var hafnað af stjórn flugfélagisns. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins gat Ballarin ekki reitt fram nægjanlegar tryggingar til staðfestingar á því að hún væri með fjármagn á lausu til að geta staðið við kaupin.

Greint var frá því í fréttum í gær að Ballarin, sem hefur haft hug á því að stofna flugfélag á Íslandi eftir að hún keypti eignir WOW air af þrotabúi félagsins, hefði sett fram skuldbinandi tilboð í útboði félagsins og að hún hefði væntingar um að halda á fjórðungshlut í Icelandair eftir kaupin. Af því verður hins vegar ekki.

Í tilkynningu sem barst frá Icelandair rétt eftir miðnætti kom fram að umframeftirspurn hefði verið eftir hlutum í útboðinu hafi numið 85 prósentum frá fagfjárfestum og almennum fjárfestum. Útboðsgengi var ein króna á hlut en boðnir voru til sölu 20 milljarðar í nýjum hlutum.

Alls bárust yfir níu þúsund áskriftir að fjárhæð 37,3 milljarðar króna. Stjórn Icelandair samþykkti hins vegar áskriftir að fjárhæð 30,3 milljarða eða sjö milljörðum lægri fjárhæð en heildarfjáræð þeirra áskrifta sem bárust.

Ákveðið var að nýta heimild til stækkunar útboðsins þannig að fjöldi seldra hluta verður 23 milljarðar.