Stjórn HB Granda hefur samþykkt samning um kaup á öllu hlutafé í útgerðarfélaginu Ögurvík ehf. sem gerður var 7. september síðastliðinn. Jafnframt hefur stjórnin ákveðið að leggja hann fyrir hluthafafund í félaginu til samþykktar. 

Kaupverðið er 12,3 milljarðar króna en það byggir á niðurstöðum tveggja óháðra matsmanna að því er fram kemur í tilkynningu frá félaginu.

Viðskiptin eru háð samþykki Samkeppniseftirlitsins. Kaupin verða fjármögnuð með eigin fé og lánsfjármagni. Hlutabréfin verða afhent við greiðslu kaupverðs.

Ögurvík er í eigu útgerðarfélagsins Brim, félags Guðmundar Kristjánssonar sem nýverið settist í forstjórastól HB Granda. Brim keypti nýverið 34 prósent hlut í HB Granda.

Brim keypti Ögurvík á 11,5 milljarða fyrir tveimur árum og er söluhagnaðurinn því um 800 milljónir króna. Guðmundur sagði kaupin skynsamleg í samtali við Markaðinn í gær.

„Mín skoðun er alveg skýr: HB Grandi á að fjárfesta í veiðiheimildum. Mér er alveg sama hvort keypt er af mér eða öðrum. HB Grandi er almenningshlutafélag í sjávarútvegi og þarf að eiga veiðiheimildir,“ sagði Guðmundur, oft kenndur við Brim.