Stjórn GAMMA, dótturfélags Kviku banka, hefur ákveðið að afturkalla kaupaukagreiðslur upp á tugi milljóna króna til ellefu fyrrverandi starfsmanna fjármálafyrirtækisins sem voru samþykktar haustið 2018 og í ársbyrjun 2019 en átti eftir að greiða að hluta út. Þá hefur stjórnin einnig farið fram á það við tvo af þessum sömu starfsmönnum, þá Valdimar Ármann, fyrrverandi forstjóra GAMMA, og Ingva Hrafn Óskarsson, sem var sjóðstjóri hjá félaginu, að þeir endurgreiði GAMMA samtals um 12 milljónir króna vegna kaupauka sem höfðu þegar verið greiddir til þeirra á árunum 2018 og 2019, samkvæmt heimildum Markaðarins.

Fyrrverandi starfsmönnum GAMMA var tilkynnt um þessa ákvörðun stjórnar félagsins í síðustu viku.

Kaupaukagreiðslurnar komu til vegna góðrar afkomu sem GAMMA skilaði á árunum 2017 og 2018. Í samræmi við reglur Fjármálaeftirlitsins var hins vegar greiðslu 40 prósenta kaupaukans frestað um þrjú ár og nam uppsöfnuð skuldbinding GAMMA vegna þessa rúmlega 33 milljónum króna í árslok 2019.

Samkvæmt ákvörðun stjórnar GAMMA verður sú fjárhæð því ekki greidd út til starfsmannanna ellefu. Er það mat hennar, samkvæmt heimildum Markaðarins, að ekki sé rétt að standa við þær greiðslur þegar í ljós hefur komið að afkoma félagsins á undanförnum misserum hefur reynst mun lakari en áætlanir þáverandi stjórnenda GAMMA gerðu ráð fyrir. Samanlagt tap GAMMA á síðustu átján mánuðum nemur tæplega 500 milljónum króna.

Á meðal fyrrverandi starfsmanna GAMMA sem munu ekki fá kaupauka sína greidda út að fullu eru Agnar Tómas Möller og Jónmundur Guðmarsson, en þeir starfa í dag hjá Kviku eignastýringu.

Ákvörðun stjórnar GAMMA að krefjast þess að Valdimar Ármann og Ingvi Hrafn endurgreiði félaginu þá fjármuni sem þeir fengu í kaupauka á sínum tíma kemur hins vegar til vegna reksturs fagfjárfestasjóðsins Novus, sjóðs í stýringu GAMMA og eiganda Upphafs fasteignafélags. Sjóðfélagar Novus töpuðu háum fjárhæðum þegar upplýst var um það fyrir um ári að eignir Upphafs voru stórlega ofmetnar og var virði félagsins lækkað úr 5,2 milljörðum í 40 milljónir. Ingvi Hrafn var sjóðstjóri Novus en hann lét af störfum eftir að tilkynnt var um bága fjárhagsstöðu sjóðsins.

Í skýringum til sjóðfélaga í september 2019 á endurmetnu virði NOVUS kom fram að raunveruleg framvinda margra verkefna Upphafs, sem stóð í framkvæmdum og sölu á yfir 400 íbúðum á höfuðborgarsvæðinu, hafi reynst ofmetin. Þá hafi kostnaður við framkvæmdir verið langt yfir áætlunum auk þess sem fyrri matsaðferðir tóku ekki að fullu tillit til fjármagnskostnaðar félagsins sem hækkaði verulega við útgáfu skuldabréfs að fjárhæð 2,7 milljarðar í júní í fyrra.

Samkvæmt niðurstöðum endurskoðunarfyrirtækisins Grant Thornton á starfsemi Novus og Upphafs á árunum 2013 til 2019 skorti verulega á formfestu við ákvörðunartöku og þá hafi sami ein­stak­ling­ur oft setið við stjórn­völ­inn og stýrt fram­kvæmd fé­lags­ins án virkr­ar aðkomu eða eft­ir­lits frá stjórn eða öðrum aðilum. Þá var virði eigna sjóðsins metið með mis­mun­andi hætti á milli ára og óljóst hvernig for­send­ur að baki verðmats voru fundn­ar í sum­um til­fell­um. Eft­ir­stöðvar verka í eigu Novus hafi verið veru­lega van­metn­ar. Gamma hefur tilkynnt um nokkur tilvik þar sem grunur er um óeðlilegar greiðslur til Péturs Hannessonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra Upphafs.

Þegar gengið var endanlega frá kaupum Kviku á öllu hlutafé GAMMA í mars 2019 var kaupverðið áætlað 2,54 milljarðar. Fyrir félagið greiddi Kvika 839 milljónir í reiðufé en afgangurinn var í formi hlutdeildarskírteina í sjóðum GAMMA og árangurstengdra þóknanatekna þegar langtímakröfur á sjóði GAMMA innheimtast. Sökum lakari afkomu GAMMA en áætlanir gerðu ráð fyrir hefur kaupverðið tekið umtalsverðum breytingum til lækkunar.