Stjórn Festi hf. hefur boðað til hluthafafundar 14. júlí næstkomandi. Ákvörðunin um fundinn kemur fram í tengslum við starfslok forstjóra félagsins, Eggerts Þórs Kristóferssonar, sem tilkynnt voru þann 2. júní síðastliðinn, þetta er samkvæmt yfirlýsingu frá stjórnar Festi hf sem birtist í gær.
„Stjórn víkur sér ekki undan málefnalegri gagnrýni en telur að horft til framtíðar sé ákvörðun hennar um forstjóraskipti rétt og mikilvægt skref í áframhaldandi þróun félagsins,“ segir í yfirlýsingunni.
Í yfirlýsingunni segir einnig að vöxtur og viðgangur Festi sé mikilvægari en einstaka stjórnendur þess eða stjórn. „Það er ósk stjórnar að boðaður hluthafafundur megi verða til þess að sætta ólík sjónarmið svo unnt sé að halda áfram þeirri vegferð sem fyrir höndum er og skipan nýs forstjóra er órjúfanlegur hluti af.“
Fjölmiðlar hafa fjallað um að Vítalía Lazareva hafi sagt opinberlega að Eggert hafi átt fund með henni og aðgreint sig frá öðrum fyrirtækjum viðskiptalífsins með góðum viðbrögðum, þegar fjórmenningarnir sem sakaðir voru um að hafa farið yfir mörk stigu til hliðar. Þórður Már Jóhannesson, sem var formaður stjórnar hjá Festi, áður en Vítalíumálið kom upp, er stærsti hluthafi félagsins, ef undan eru skildir lífeyrissjóðir.