Rúmlega 40 þúsund hafa í dag horft á nýja stiklu [e. Tra­iler] fyrir leikinn Isle of Winds sem fram­leiddur er af ís­lenska tölvu­leikja­fyrir­tækinu Parity.

„Við erum búin að ná góðum árangri í dag á er­lendum síðum sem við höfum verið að vinna með. Á vef IGN vorum við komin upp í 40 þúsund á­horf bara í dag. Til saman­burðar var FIFA að fá þar 80 þúsund, þannig við erum að ná á­gætu á­horfi á fimm klukku­tímum,“ segir María Guð­munds­dóttir sem er stofnandi og fram­kvæmda­stjóri Parity sem framleiðir leikinn.

Leikurinn kemur út á næstu ári og byggir á ís­lenskum þjóð­sögum. Hann fjallar um Bryn­hildi og gerist á 17. öld á Ís­landi. Notast er við ís­lensk nöfn yfir ýmis vopn og annað sem karakterarnir hafa auk þess sem tal­setning í leiknum verður ís­lensk þó að það verði hægt að fá texta á öllum heimsins tungu­málum.

María starfaði áður hjá CCP, í tólf ár, og segir að þegar hún hætti hafi hún verið komin með alveg nóg af karla­menningunni sem að ein­kennir þennan geira.

„Ég ætlaði aldrei að búa til tölvu­leik aftur og fór að vinna hjá öðru fyrir­tæki við aðra hluti. Þangað komu einu sinni stelpur sem voru að læra for­ritun í HR og ég spurði hversu margar þeirra væru „gamers“ og ein rétti upp hönd og önnur hálf­vegis. Þær tengdu ekkert við orðið og ég hugsaði með mér að með alla mína reynslu yrði ég að gera eitt­hvað í þessu,“ segir María og að í kjöl­farið hafi hún stofnað Parity.

Vildi auka fjölbreytileika

Fyrsta mark­miðið var að auka fjöl­breyti­leika í tölvu­leikja­geiranum að sögn Maríu. Bæði hvernig leikurinn er og hvernig teymið er sam­sett, þannig að kynja­hlut­fallið sé jafnt.

„Við vorum fyrst 75 prósent konur en erum núna 40/60 konur og karlar en það er líka vegna þess að það vantar enn fleiri konur með mikla reynslu í geirann. En ég reyni að horfa frekar til um­sókna frá konum til að gefa þeim tæki­færi inn í geirann,“ segir María.

Hún segir að hug­myndin að Isle of Winds hafi komið upp á „brain­storming“ fund hjá nokkrum konum. Hún segir að þeim hafi langað að segja sögu sem að þær tengdu við.

Skjáskot út leiknum.
Skjáskot/Parity

Úreltar staðalímyndir kvenna

María segir að þær hafi strax haft á­kveðnar skoðanir á því hvernig aðal­sögu­hetjan, sem varð að vera kona, átti að vera og þær voru harð­á­kveðnar að falla ekki í al­gengar gryfjur um kvenkaraktera.

„Hún átti ekki að vera svona „coming of age“ eins og er svo oft. Þannig að það stafi engum hræðsla af henni og hún sé enn ung og ó­reynd og við vildum heldur ekki fara í „gömlu konuna“. En svo eru allar konur þar á milli, 20 til 50 ára, bara kyn­bombur sem eru að leita að körlum. Það vantar svo hetju sem er að glíma við alls­konar vanda­mál. Bryn­hildur, sögu­hetjan okkar, kom úr þeirri hug­mynda­vinnu.“

María segir að annað sem þær hafi viljað leggja á­herslu á er að náttúran og út­litið á leiknum svipaði mjög til þess hvernig náttúran og um­hverfið er raun­veru­lega á Ís­landi.

„Það er svo ein­stakt, þetta lita­val hérna, það er þetta gula gras og dapra vor sem fer aldrei á Ís­landi. Það er svona gul slikja yfir leiknum, á mjög fal­legan máta,“ segir María og hlær.

Í til­kynningu sem send var út í dag um leikinn kemur fram að spilarar munu á meðan þeir spila leikinn takast á við ýmsar á­skoranir eins og að efast um sjálfan sig, eftir­sjá og hvar þau eigi heima. Þá læra þau um sögu Ís­lands og sögu Bryn­hildar á meðan þau spila.