Erlend kortavelta jókst um 54 prósent milli maí- og júnímánaðar á þessu ári, að því er kemur fram í samantekt Rannsóknarseturs verslunarinnar.

Kortavelta erlendra ferðamanna var ríflega 9,4 prósent af heildarkortaveltu júnímánaðar, en sama hlutfall var 3,6 prósent í júní á síðasta ári.

Sé hins vegar litið til júnímánaðar 2019, sem teljast má síðasti, venjulegi júnímánuður fyrir heimsfaraldurinn, var hlutfall veltu erlendra greiðslukorta af heildarvelut tæplega 27 prósent.

Bandaríkjamenn eru áberandi stærstur hluti ferðamanna hér á landi ef marka má kortaveltuna.

Einstaklingar með greiðslukort skráð þar í landi voru ábyrgir fyrir um 58 prósent af allri erlendri kortaveltu hér á landi í júní. Bretar og Þjóðverjar koma þar á eftir með hvor sín rúmlega sjö prósent veltunnar.