Uppgjör Marels fyrir fjórða ársfjórðung var yfir væntingum greinenda. Tekjurnar voru tæpum sjö prósentum hærri, EBITDA-hagnaður tæplega 19 prósentum meiri og hagnaður nærri átta prósentum hærri en spár fjögurra greininga hljóðuðu upp á að meðaltali.

Hagnaður á fjórða ársfjórðungi var 29,1 milljón evra en var 10,2 milljónir evra á sama tíma fyrir ári. Tekur námu 343,3 milljónum á tímabilinu en voru 320,1 milljón evra fyrir ári síðan.

Sérfræðingar á markaði segja að uppgjörið hafi verið „sterkt“.

Athygli vekur að tekjur drógust einungis saman um fjögur prósent á milli áranna 2020 og 2019 en í COVID-19 heimsfaraldrinum hefur dregið úr efnahagsumsvifum.

Marel bendir á heimsfaraldurinn hafi gert það að verkum að sjálfvirkni- og tæknivæðing framleiðslufyrirtækja hafi verið flýtt til að auka hreinlæti og draga úr líkum á sjúkdómum.

„Stafræn þróun er á ógnarhraða og betri nýting gagna og upplýsingatækni er nú þegar að umbylta virðiskeðju matvæla. Heimsfaraldurinn ýtir enn frekar undir fjárfestingar í sjálfvirkum, sveigjanlegum og sjálfbærum lausnum,“ segir Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marels, í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Þýska félaginu TREIF Maschinenbau GmbH, sem sérhæfir sig í skurðtæknilausnum í matvælaiðnaði, er hluti af samstæðu uppgjöri Marel frá og með fjórða ársfjórðungi. Tekjur TREIF fyrir kaupin námu um 80 milljónum evra á ársgrundvelli, þar af nam EBITDA 13 milljónum evra. „Tekjur TREIF á fjórða ársfjórðungi voru góðar og félagið skilaði sterkri rekstrarafkomu,“ segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

„Staða pantana var góð í árslok og fjárhagsstaða Marel er sterk með hreinar skuldir undir eins árs EBITDA-framlegð,“ segir Árni Oddur.

Pantanir námu 319,7 milljónum evra við lok fjórða ársfjórðungs samanborið við 302,6 milljónir evra á sama tíma fyrir ári.

Stjórn Marel mun leggja til við aðalfund félagsins, sem haldinn verður þann 17.mars 2021, að hluthafar fái greiddan arð fyrir rekstrarárið 2020 sem nemur 5,45 evru sentum á hlut, eða 6 prósentum lægra á hvern hlut samanborið við fyrra ár. Áætluð heildararðgreiðsla nemur um 41,0 milljónum evra sem samsvarar um það bil 40 prósent af hagnaði ársins. Tillagan er í samræmi við markmið félagsins um fjármagnsskipan og 20-40 prósent arðgreiðslustefnu.