Peter Cole og Bethan kona hans keyptu garðyrkjubýlið Engi í Laugarás í Biskupstungum á síðasta ári. Þau eru frá Wales en hafa hafa verið búsett á Íslandi í um tæplega þrjú ár. Peter segir að þau ætli ekki að breyta miklu við ræktunina á Engi en þeim hafi langað að bæta úrvalið og hafi því ákveðið að prófa að rækta 40 mismunandi tegundir af chili.

Meðal þess sem Peter er að rækta er Carolina Reaper sem er, að hans sögn, sterkasti chili í heimi samkvæmt Heimsmetabók Guinnes. „Ég veit ekki hvernig mínir eru í samanburði við aðra sem eru ræktaðir í heiminum. Þeir eru kannski ekki jafn sterkir og þeir sem eru ræktaðir í Kaliforníu, en þeir eru ansi sterkir,“ segir Peter í samtali við Fréttablaðið í dag.

Hann vonast til að geta búið til íslenska chili sósu en segir að öðru leyti verði starfsemin í Engi með svipuðu sniði og hún hefur verið síðustu ár. Að vanda verður opið fyrir almenning til að versla sér grænmeti og hann taldi líklegt að til að byrja með myndi vera opið um helgar. 

Hann segir að mikið sé búið að vera að gera síðan þau tóku við en þau vonast til að opna snemma í næsta mánuði. „Það fer allt eftir því hversu stórar gulræturnar verða í byrjun júní,“ segir Peter í samtali við Fréttablaðið í dag. 

Það verður svo að sjálfsögðu líka hægt að versla margar mismunandi tegundir af chili hjá þeim, þegar opnar í júní. 

Sterkasti chili sem hefur verið ræktaður á Íslandi

Björn Teitsson, einn stofnenda Ég ann chili Facebook-hópsins segir að hann hafi undanfarna daga prufað chili-inn frá Engi og telur það mjög líklegt að Carolina Reaperinn sé sterkasti piparinn sem hafi nokkurn tíma verið ræktaður á Íslandi. 

„Ég var nógu heppinn að ná mér í nokkra Sxotch Bonnet og Habanero pipara og ég er mjög spenntur að gæða mér á Caroline reaper,“ segir Björn.

Hann segir lúmskt vaxandi áhuga fyrir chili á Íslandi og sterkum mat. „Þegar félagið var stofnað var það grín á milli vina og við fórum í hópferðir á Ban-Thai. En núna eru tæplega þúsund manns í hópnum sem skiptast á uppskriftum og ráðleggingum. Fólk deilir leyndum gimsteinum í veitingahúsaflórunni, hvort einhver sé með sterkan rétt á matseðli eða sé að selja sterkar sósur. Svo er fólk að sjálfsögðu  að deila upplýsingum um það hvar er hægt að fá góðan chili, eins og gerðist núna þegar Bændur í bænum byrjuðu að selja reaper-inn“ segir Björn í samtali við Fréttablaðið í dag.

Hann segir að fólk eigi ekki endilega að borða svo sterka pipra þurra en það sé sniðugt að nota þá í annað. „Fyrir mjög hugrakka einstaklinga er sniðugt að nota þá í matargerð. En svo er einfaldlega hægt að gera sósur, sem er þrælskemmtilegt sport. „Hot“ sósur eru mjög góðar með allskonar mat, á borgara eða egg,“ segir Björn.

Aðspurður hvort hann hafi ráðleggingar fyrir fólk sem vill prófa Carolina Reaper þá segir hann gott að fara gætilega.

„Ef fólk er að meðhöndla Carolina Reaper er nauðsynlegt að nota latexhanska og jafnvel þótt það noti hanska ætti það ekki að klóra sér í augunum eða annars staðar á viðkvæmum stöðum. Það getur reynst mjög sársaukafullt,“ segir Björn að lokum.

Aðeins 100 grömm fáanleg - sem seljast vel

Piparinn er nú fáanlegur hjá Bændum í bænum, sem er lífrænn bændamarkaður á Grensásvegi sem selur íslenskt grænmeti beint frá bónda. Þau fengu aðeins 100 grömm í fyrsta skiptið. 

„Þetta er í fyrsta skipti sem við erum með þennan sterka. Þetta selst rosalega vel og mikil spenna fyrir þessu, sérstaklega meðal karlkynsins. Það er til félagsskapur hérna sem kallar sig „Ég ann chili“ og þeir streymdu hingað í gær og fræddu okkur um chili. Við höfum alltaf selt mildari chilli frá Akri, en þetta er alveg nýtt afbrigði og við ákváðum að taka það inn. Það er gaman að hafa þetta með,“ segir Dóra Þorvarðardóttir verslunarstjóri hjá Bændum í bænum. 

Hér að neðan má sjá færsluna þar sem tilkynnt var um sölu piparsins og hægt að skoða líflegar umræður við þráðinn.