Í dag eru slétt fimmtán ár frá því fjarskiptafélagið Nova fór í loftið. Fyrr á þessu ári steig fyrirtækið svo skrefið inn á aðalmarkaði Nasdaq Iceland með útboði á ríflega þriðjungshlut í fyrirtækinu.

Margrét Tryggvadóttir, forstjóri Nova, segir alveg klárt að það geti verið krefjandi að halda í þann ferskleika sem hefur einkennt fyrirtækið, nú þegar heil 15 ár eru liðin og félagið komið á markað.

„Okkar mantra hefur alltaf verið að við eigum að ögra okkur. Í öllu sem við gerum. Varðandi tækninýjungar, í þjónustunni við okkar viðskiptavini og nú gagnvart fjárfestum. Þannig höldum við okkur ferskum,“ segir Margrét.

Hún segist meðvituð um að taktur fyrirtækja geti breyst samhliða slíkum breytingum.

„En hvað Nova varðar þá tel ég mjög mikilvægt að halda í það sem hefur skapað árangurinn og kúltúr inn. Muna hver við erum og hvaða þættir hafa gefið góða raun.

Það er það sem ég trúi að nýir hluthafar hafi keypt. Það væri mjög skrýtið ef við færum að hegða okkur einhvern veginn öðruvísi við það eitt að stíga inn í Kauphöllina.“

Enda segir Margrét ekkert standa til að skipta um takt eða lækka tónlistina sem hefur einkennt Nova frá upphafi.

„Við höfum alltaf verið í hlutverki óþekka unglingsins á þessum markaði þannig að það fer okkur kannski bara vel að vera á þessum aldri, orðin 15 ára,“ segir hún og hlær.

„En svona í alvöru þá finnst okkur mjög mikilvægt að andrúmsloftið sé jafn ferskt og kraftmikið í dag eins og það var þegar við byrjuðum. Við erum alltaf með augun á háleitum markmiðum. Og svo viljum við hafa gaman. Það er ekkert að fara að breytast,“ segir Margrét.

Við höfum alltaf verið í hlutverki óþekka unglingsins á þessum markaði.

Hún segist vel geta skilið að fólk velti því fyrir sér hvort rétt hafi verið að fara í hlutafjárútboð á þessum tímapunkti. Hvort sú ákvörðun hafi verið góð.

„Svarið við því fer svolítið eftir sjónarhorninu. Út frá seljandanum, PT Capital, þá var þetta klárlega góð ákvörðun. En ef ég horfi á þetta sem stjórnandi þá myndi ég segja að þetta hafi verið lærdómsríkt,“ segir Margrét.

„Þetta hefur verið krefjandi en líka mjög skemmtilegt.“

Að hennar mati megi þó ekki vanmeta mikilvægi þess að fá inn fjölbreyttan eigendahóp.

„Það skiptir gríðarlegu máli. Við erum innviðafyrirtæki og þess vegna er mjög gott að fá lífeyrissjóðina inn og fleiri aðila.“

Ég held við séum að sigla inn í enn eitt blómaskeiðið í þessum geira.

Margrét segir það samt enga launung að hún hefði viljað sjá gengi bréfanna þróast með öðrum hætti.

„Það segi ég bæði sem hluthafi og sem starfsmaður. Nova hefur verið að vinna sigra frá því fyrirtækið var stofnað. Þegar maður sér svo allt í einu mínustölur er maður auðvitað ekkert sáttur. En við erum keppnisfólk, setjum undir okkur hausinn og einbeitum okkur að því sem við viljum gera til að vera áfram leiðandi á þessum markaði. Það skilar sér á endanum til allra; viðskiptavina, starfsfólks, hluthafa og samfélagsins í formi sterkra innviða. Þetta er bara enn ein áskorunin og við þrífumst á þeim.“ Enda telur Margrét ekki erfitt að viðhalda keppnisskapi þegar umhverfið er jafn spennandi og raun ber vitni.

„Ég held að við séum að sigla inn í enn eitt blómaskeiðið í þessum geira. Með frekari snjallvæðingu og nýrri tækni. En svo eru líka miklar breytingar í gangi á íslenskum fjarskiptamarkaði. Í þeim felast ótvíræð tækifæri fyrir Nova.

Með því segist Margrét eiga við þær breytingar sem hafa átt sér stað hjá fjarskiptafyrirtækjum sem hafa ákveðið að aðgreina grunnkerfin frá annarri starfsemi.

„Við hjá Nova erum með ólíka sýn hvað það varðar. Við erum sterkt innviðafyrirtæki og það er ekki hluti af okkar stefnu að selja grunnkerfin. Við höfum sagt það alveg skýrt og gerðum það til að mynda þegar við stigum inn í Kauphöllina,“ segir Margrét.

Sú trú sé einfaldlega sterk innan fyrirtækisins að með því að halda á allri virðiskeðjunni skapist ákveðið forskot inn í komandi tækniþróun.

„Við viljum alltaf vera fyrst inn í framtíðina þegar kemur að snjöllum lausnum. Ef við höldum ekki á allri keðjunni er hætta á að við verðum dálítið eins og kexverksmiðja sem á bara pökkunarvélina. Sjáum bara um umbúðir en höfum ekki stjórn á öllu því sem þarf að gerast á undan.“

Margrét segir þetta eitt af því sem reynslan hafi kennt henni.

„Djarfar ákvarðanir í fortíðinni hafa skapað okkur forskot inn í framtíðina. Við viljum ekki missa tökin á því eða missa þann brodd út úr fyrirtækinu. Það væri ekki í okkar anda,“ segir Margrét.