„Í grunninn snýst um stefnuleysi stjórnvalda,“ segir Tómas Kristjánsson, formaður Rafbílasambands Íslands um frumvarp fjármálaráðherra sem myndi fela í sér að fjöldatakmörkun virðisaukaskattsívilnunar vegna innflutnings og sölu á rafbílum yrði felld niður.
Í júní síðastliðnum kallaði Rafbílasambandið eftir því að Alþingi myndi setja skýra langtímastefnu í málum sem snúast um niðurfellingu á virðisaukaskatti við innflutning á rafbílum.
Tómas segir að ekki sé hægt að vinna að framförum í orkuskiptum á þegar reglurnar breytast á nokkra mánaða fresti.
„Þetta stefnuleysi bitnar á svo mörgum. Þetta bitnar á markaðnum og þeim sem eru að reyna að stuðla að orkuskiptum í samgöngum. Þetta hægir verulega á þeim,“ segir Tómas.
Ívilnanir stjórnvalda á rafmagnsbílum eru í dag í formi lækkaðs virðisaukaskatts sem gildir út árið 2023, en þó að hámarki fyrir 20 þúsund bíla frá árinu 2012 og þar til kvótinn er tæmdur. Samkvæmt Bílgreinasambandinu má gera ráð fyrir að kvótanum verði náð á vormánuðum 2023.
„Upprunalega þegar lögin eru sett, sem veittu heimild fyrir afslættinum af virðisaukaskatt, þá var kvótinn fimmtán þúsund rafbílar, eða til lok árs 2022. Síðan þegar það var ljóst að múrinn yrði rofinn mun fyrr en búist var við, þá var lögum breytt um að þetta myndi ná upp í tuttugu þúsund rafbíla, eða til lok ársins 2023. Þá skilaði Rafbílasambandið umsögn, þar sem við fórum fram á langtímastefnu og að heimildin yrði hækkuð í þrjátíu þúsund bíla,“ segir Tómas.
Upphaflega var gert ráð fyrir fimmtán þúsund vetnisbílum, ásamt rafbílum, en að sögn Tómasar hafa vetnisbílar í raun aldrei komið hingað til lands nema í tilraunaskyni.
„Okkur fannst það liggja beinast við að sameina kvótann. Það hefði strax verið betra fyrirkomulag,“ segir Tómas.
Tómas vill samt ekki meina að það sé afturför í orkuskiptum hér á landi.
„Það er ósanngjarnt að tala um afturför á meðan það er eitthvað að gerast, en þetta er sannarlega ekki nóg. Ef allt myndi stoppa 2023, þá væri það afturför. Ég get samt alveg séð fyrir mér að það verði einhver plástur settur á í hálft ár í viðbót og svona verði þetta, en þetta er ekki langtímastefna. Það er ekki hægt að vinna eftir þessu ef það er verið að gera breytingar á sex mánaða fresti,“ segir Tómas.