Stefnt er að því að Reitir og Mosfellsbær skrifi undir uppbyggingarsamning vegna Blikastaða á næstunni en fasteignafélagið Reitir á 15 hektara land undir atvinnuhúsnæði á Blikastaðalandinu.

Þetta kemur fram í þættinum Stjórnandinn með Jóni G. sem er á dagskrá Hringbrautar kl. 21 í kvöld, en Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita, er gestur Jóns.

Þær byggingaheimildir sem Reitir eru með á Blikastaðalandinu voru til staðar inni í því eignasafni sem Reitir eignuðust þegar félagið hóf starfsemi sína.

„Við keyptum þarna óbrotið land á sínum tíma; 15 hektara, og erum búin að vinna með það og þróa síðan – og munum að öllum líkindum á næstu dögum skrifa undir uppbyggingarsamning við Mosfellsbæ um skipðulag svæðisins. Í mínum huga er þetta einstaklega spennandi verkefni á mjög góðum stað,“ segir Guðjón meðal annars í þættinum.

Þátturinn Stjórnandinn með Jóni G. er á dagskrá Hringbrautar öll sunnudagskvöld og endursýndur fram að kvöldmat á mánudögum.