VEX I, framtakssjóður í stýringu hjá VEX, sem keypti nú í desember allt hlutafé í Opnum Kerfum og hluthafar upplýsingatæknifélagsins Premis, hafa undirritað samning um að sameina félögin og eignarhald þeirra. Samanlögð velta félaganna árið 2021 var rúmlega fimm milljarðar króna og EBITDA rúmlega 300 milljónir.

Rekstur félaganna skiptist í tvær megin stoðir; vélbúnaðarsölu og rekstur og hýsingu tölvukerfa. Í sameinuðu félagi verða rúmlega 120 starfsmenn með starfsstöðvar bæði í Reykjavík og á Sauðárkróki. Hluthafar félagsins eftir sameiningu verða VEX I, Fiskisund og félög í eigu starfsmanna. Sameiningin er háð samþykki Samkeppniseftirlitsins. Þetta kemur fram í tilkynningu.

„Fyrirhuguð sameining við Premis gerir okkur kleift að veita viðskiptavinum enn betri þjónustu, breikka vöru- og þjónustuframboð og auka enn frekar áherslu á öryggismál sem sífellt verða mikilvægari í rekstri félaga,“ segir Ragnheiður Harðar Harðardóttir, forstjóri Opinna Kerfa.

„Við höfum sérhæft okkur í að reka tölvukerfi fyrirtækja. Tölvuumhverfi þeirra er að verða flóknara og fleiri fyrirtæki sjá hagræði í að útvista tölvurekstri sínum til aðila sem sérhæfa sig í slíkum rekstri. Sameinað félag mun verða leiðandi á þessu sviði og mun bjóða upp á enn betri þjónustu og öruggara umhverfi sem er mikilvægt fyrir íslenskt atvinnulíf,“ segir Kristinn Elvar Arnarsson, forstjóri Premis.