Icelandair Group stefnir að því að hlutafjárútboð félagsins fari fram í lok júnímánaðar, eftir því sem fram kemur í kynningu fyrir hluthafafund flugfélagsins. Viðræður standa enn yfir við kröfuhafa, stjórnvöld og Boeing og er gert ráð fyrir að samkomulag náist við þau fyrir miðjan júní.

Tillaga stjórnar flugfélagsins þess efnis að hún fái heimild til þess að auka hlutafé félagsins um allt að þrjátíu milljarða króna að nafnvirði var samþykkt samhljóða á hluthafafundinum sem hófst klukkan fjögur í dag á Hilton Reykjavík Nordica hótelinu.

Áform forsvarsmanna Icelandair Group miða við að hlutafjárútboðið - þar sem til stendur að sækja á bilinu 150 til 200 milljónir dala, allt að 29 milljarða króna, í nýtt hlutafé - fari fram í kjölfar þess að samkomulag náist við helstu haghafa flugfélagsins og má í því sambandi nefna flugfreyjur og flugþjóna félagsins, lánveitendur, leigusala og aðra birgja, stjórnvöld og bandaríska flugvélaframleiðandann Boeing.

Ef viðræður við umrædda haghafa skila árangri verður lýsing fyrir hlutafjárútboðið í kjölfarið gefin út og kynningar fyrir fjárfesta haldnar - á dögunum 16. til 22. júní - og er þá gert ráð fyrir að hlutafjárútboðið fari fram á dögunum 29. júní til 2. júlí.

Hvað varðar viðræður Icelandair Group við kröfuhafa er tekið fram í fyrrnefndri kynningu að þær gangi út á endurskipulagningu skulda og er í því sambandi meðal annars nefnt greiðsluhlé og breytingar á lykilskilmálum.

Þess má geta að sá valmöguleiki verður fyrir hendi í hlutafjárútboðinu að skuldum verði breytt í hlutafé.

Þá segir í kynningunni að félagið eigi í viðræðum við Boeing um annars vegar afhendingu þeirra MAX-þota sem það hefur þegar keypt og hins vegar um frekari bætur vegna kyrrsetningar þota bandaríska framleiðandans. Er gert ráð fyrir því að samkomulag liggi fyrir við Boeing - rétt eins og við kröfuhafa flugfélagsins - um miðjan næsta mánuð.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group.
Fréttablaðið/Stefán