Stefnir, sjóðastýringafyrirtæki Arion banka, vinnur að því að koma á fót nýjum framtakssjóði. Starfsmenn fyrirtækisins hafa fundað með fjárfestum vegna málsins, samkvæmt heimildum Markaðarins.

Sjóðurinn er sá fjórði sinnar tegundar á vegum Stefnis og mun bera nafnið SÍA IV. Hann mun líkt og fyrri sjóðir fjárfesta í óskráðum eignum og mun ekki vera takmarkaður við tilteknar atvinnugreinar.

Samkvæmt samþykktum mun fjárfestingatímabil félagsins vera fjögur ár. Leitast verður við að selja allar fjárfestingarnar innan fimm ára eftir að fjárfestingatímabili lýkur.

Fyrir fjórum árum safnaði Stefnir í tæplega 13 milljarða sjóð þegar SÍA III var komið á fót. Árið 2013 var safnað í 7,5 milljarða króna sjóð sem ber nafnið SÍA II. Fyrsti framtakssjóðurinn, SÍA I, var 3,4 milljarðar að stærð.

SÍA III fjárfesti meðal annars í Lyfju, Men&Mice, Terra og í byggingu Marriott Edition hótelsins við Hörpu. SÍA II fjárfesti meðal annars í móðurfélagi Krónunnar og Elko sem síðar sameinaðist N1. Sami sjóður fjárfesti í Skeljungi árið 2013 og fleytti félaginu á hlutabréfamarkað. Fyrsti framtakssjóður Stefnis fjárfesti meðal annars í Högum og kom að kaupum og síðar skráningu Sjóvá í Kauphöll.