Tveir hlutabréfasjóðir í stýringu Stefnis, dótturfélags Arion banka, fjárfestu í Alvotech fyrir samanlagt um 5 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði rúmlega 600 milljóna króna, í lokuðu útboði sem lauk fyrr í þessum mánuði þar sem lyfjafyrirtækið sótti sér 35 milljónir dala í nýtt hlutafé.

Aðrir íslenskir fjárfestar sem komu að útboðinu, samkvæmt heimildum Markaðarins, voru tryggingafélagið TM, fjárfestingarfélagið Hvalur, sem er stýrt af Kristjáni Loftssyni, og Lífeyrissjóður Vestmannaeyja en auk þess lögðu nokkrir einkafjárfestar félaginu til fjármagn. Jöklar-Verðbréf höfðu umsjón með fjárfestingu Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja, sem á helmingshlut í verðbréfafyrirtækinu, en engir ef helstu lífeyrissjóðum landsins komu hins vegar að fjármögnun Alvotech á þessu stigi.

Fjárfesting Stefnis nam um þriðjungi þeirrar heildarfjárhæðar sem íslenskir fjárfestar keyptu fyrir í útboðinu – 15 milljónum dala – en þetta var í fyrsta sinn sem innlendir fjárfestar, sem eru ekki hluti af stjórnendateymi lyfjafyrirtækisins, koma inn í hluthafahóp Alvotech. Það voru sjóðirnir ÍS 15, opinn hlutabréfasjóður, og ÍS 5, lokaður vogunarsjóður, sem stóðu að baki fjárfestingunni hjá Stefni.

Samtals hefur Alvotech sótt sér um 100 milljónir dala í nýtt hlutafé á undanförnum fjórum mánuðum.

Með þeirri fjármögnun sem nú er lokið, þar sem Alvotech var verðmetið á um 2,4 milljarða dala, er talið að búið sé að tryggja rekstur fyrirtækisins fram yfir áformað hlutafjárútboð og skráningu á markað erlendis síðar á árinu. Stefnt hefur verið að skráningu í kauphöll í Hong Kong en samhliða er einnig horft til þess möguleika að félagið fari á markað í bandarísku kauphöllinni Nasdaq. Alþjóðlegu fjárfestingarbankarnir Morgan Stanley, Goldman Sachs og HSBC verða ráðgjafar félagsins við skráningarferlið.

Alvotech, sem er stýrt af Róberti Wessman, stofnanda félagsins, hóf vinnu við útgáfu á nýju hlutafé á síðasta ári, eins og Markaðurinn hefur áður sagt frá, og var markmiðið að sækja sér samtals 100 milljónir dala. Fjárfestingin var meðal annars kynnt íslenskum fjárfestingafélögum og lífeyrissjóðum síðastliðið haust.

Ekkert varð hins vegar af aðkomu þeirra þegar Alvotech lauk fyrsta áfanga fjármögnunar – upp á samtals 65 milljónir dala – í lok október. Auk núverandi hluthafa Alvotech, sem lögðu til stóran hluta fjármagnsins, komu að þeirri hlutafjáraukningu fjárfestar úr lyfjageiranum í Bandaríkjunum, Evrópu og Asíu.

Alvotech er í meirihlutaeigu Aztiq Pharma og þá er Alvogen stór hluthafi, en þar eru fyrir einir stærstu fjárfestingarsjóðir í heiminum í dag, CVC Capital Management og Temasek, sem er fjárfestingarsjóður í Singapúr. Aðrir hluthafar eru meðal annars alþjóðlegi fjárfestingarsjóðurinn Yas Holding og japanska lyfjafyrirtækið Fuji Pharma.