Stefnir, sjóðastýringarfélag í eigu Arion banka, hefur hleypt af stokkunum arðgreiðslusjóði. Óðinn Árnason, sem stýrir sjóðnum, segir að einungis verði fjárfest í félögum sem sögulega greiða arð eða eru líkleg til að greiða arð innan 12 mánaða.

„Mörgum þykir þægilegra að færa sparnað úr innlánum og skuldabréfum í ljósi lágs vaxtastigs í sjóð sem fjárfestir einungis í fyrirtækjum í Kauphöll sem greiða arð eða eru líkleg til þess. Það gerir það mögulegt að sjóðsfélagar fá greiddan arð úr sjóðnum einu sinni á ári. Það má gera ráð fyrir að sjóðurinn geti greitt arð um og yfir þrjú prósent af markaðsvirði eins og síðustu ár hafa verið og stundum meira, í góðu árferði. Árið í ár líti t.d. vel út í því sambandi. Það verður þó að hafa í huga að eignir sjóðsins geta sveiflast í virði eins og í öðrum hlutabréfasjóðum,“ bendir hann á.

Óðinn segir að mörg skráð fyrirtæki í Kauphöllinni séu komin með arðgreiðslustefnu og stefni á að greiða hluthöfum reglulegan arð.