Sjóðir í stýringu Stefnis, dótturfélags Arion banka, hafa að undanförnu selt nærri 0,7 prósenta hlut í bankanum, samkvæmt nýjum lista yfir stærstu hluthafa hans, og fara nú með samanlagt 1,56 prósenta hlut í Arion banka.

Miðað við núverandi gengi hlutabréfa í bankanum má ætla að sjóðir eignastýringarfélagsins hafi minnkað við sig í honum fyrir um 670 milljónir króna. Gengi bréfanna hefur fallið um meira en 35 prósent á síðustu fimm vikum.

Sjóðir í stýringu Stefnis, sem komu fyrst inn í hluthafahóp Arion banka snemma árs 2018, fóru með 2,46 prósenta hlut í bankanum í lok síðasta árs og hafa þannig selt samanlagt 0,9 prósenta hlut - að virði um 900 milljóna króna - á undanförnum þremur mánuðum.

Á sama tíma og sjóðir eignastýringarfélagsins hafa minnkað við sig í bankanum hefur Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins haldið áfram að bæta við hlut sinn. Þannig flaggaði sjóðurinn því í kauphöllinni fyrir rúmri viku að hann hefði keypt tíu milljónir hluta í Arion banka - fyrir um 510 milljónir króna - og færi í kjölfarið með alls 5,1 prósents hlut í bankanum.

Breski vogunarsjóðurinn Lansdowne Partners heldur áfram að selja sig niður í Arion banka, samkvæmt áðurnefndum hluthafalista, og heldur nú á ríflega tveggja prósenta hlut í bankanum. Til samanburðar átti sjóðurinn 2,9 prósenta hlut í bankanum í lok febrúarmánaðar og 4,3 prósenta hlut í janúarlok.

Gengi hlutabréfa í Arion banka hefur eins og áður sagði lækkað um rúmlega 35 prósent á undanförnum fimm vikum - eftir að hlutabréfamarkaðurinn tók dýfu í seinni hluta febrúar vegna kórónaveirunnar - en af kauphallarfélögum hefur aðeins Icelandair Group lækkað meira í markaðsvirði á þeim tíma. Sé litið til síðustu tólf mánaða hefur hlutabréfaverð í Arion banka lækkað um 27 prósent.