Tilnefningarnefnd leggur til að Sigrún Ragna Ólafsdóttir, Björk Viðarsdóttir og Arnar Þór Másson taki sæti í stjórn Símans. Helga Valfells, framkvæmdastjóri vísisjóðsins Crowberry Capital, Kolbeinn Árnason og Silvía Kristín Ólafsdóttir munu víkja úr stjórninni.

Kolbeinn tók nýlega við starfi skrifstofustjóra matvælaöryggis- og fiskeldis hjá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Silvía Kristín tók nýverið við starfi framkvæmdastjóra viðskiptaþróunar og markaðsmála hjá Origo.

Sigrún Ragna, fyrrverandi forstjóri VÍS og Mannvits, er sjálfstætt starfandi ráðgjafi og stjórnarmaður. Hún er stjórnarformaður Stefnis og Auðkennis og situr í stjórn Reiknistofu bankanna, Creditinfo Group og Creditinfo Lánstrausts.

Björk hefur verið framkvæmdastjóri hjá TM frá árinu 2016, og stýrir þar og ber ábyrgð á daglegum rekstri tjónaþjónustu félagsins.

Arnar Þór er sjálfstætt starfandi við ráðgjöf við fjárfestingar í innviðum og endurnýjanlegri orku. Hann er varaformaður stjórnar Marels. Arnar var framkvæmdastjóri mannauðs og stefnumótunar hjá Isavia 2019-2020 og á árunum 2016-2019 sat hann fyrir Íslands hönd í stjórn European Bank for Reconstruction and Development (EBRD) í London.

Tveir stjórnarmenn Símans munu sitja áfram: Jón Sigurðsson stjórnarformaður. Hann er jafnframt stjórnarformaður fjárfestingafélagsins Stoða sem er stærsti hluthafi Símans. Bjarni Þorvarðsson, stjórnarformaður lyfjaframleiðandans Coripharma, er einnig í stjórn Símans.