Enn er mikil að­sókn í endur­greiðslu á virðis­auka­skatti vegna vinnu iðnaðar­manna við endur­bætur og við­hald. Sam­kvæmt upp­lýsingum frá Sam­iðn, sam­bandi iðn­fé­laga, bárust á fyrstu tveimur mánuðum ársins um níu þúsund endur­greiðslu­beiðnir til Skattsins saman­borið við allt árið 2020 þegar þær voru 45.000 alls og árið 2019 voru þær tæp­lega 12.000.

Alls nema endur­greiðslur á fyrstu tveimur mánuðum ársins 2021 þegar 130 milljónum. Alls hafa þegar verið af­greiddar 1.500 endur­greiðslu­beiðnir vegna 2021.

„Það stefnir í met­ár í fram­kvæmdum hér á landi ef heldur fram sem horfir. Iðnaðar­menn hafa haft nóg að gera enda sjá margir tæki­færi að láta gera við hús­næði og bif­reiðar og fá virðis­auka­skattinn endur­greiddan. Endur­greiðslan var tíma­bundið hækkuð úr 60 prósent í 100 prósent til að bregðast við niður­sveiflu í efna­hags­lífinu af völdum CO­VID-19," segir Hilmar Harðar­son, for­maður Samiðnar, Sam­bands iðn­fé­laga.

Atvinnuskapandi og gott fyrir neytendur

Hann segir að á­kveðið hafi verið að hækka endur­greiðslu­hlut­fallið vegna vinnu við í­búðar­hús­næði fram til árs­loka 2021, og víkka út þá heimild þannig að hún taki meðal annars einnig til hús­næðis í eigu sveitar­fé­laga og bíla­við­gerða.

„Við hjá Sam­iðn lögðum mikla á­herslu á þetta átak enda er það at­vinnu­skapandi og einnig mikil­vægt út frá neyt­enda­sjónar­miðum enda tryggir það enn frekar að leitað sé til fag­manna sem er mikið kapps­mál allra. Það hefur skilað okkar fé­lags­mönnum aukinni vinnu og verk­efnum á þessum erfiðu tímum. Á sama tíma lækkar á­takið kostnað al­mennings en það er mikil­vægt að hann geti leitað til fag­manna varðandi byggingar­fram­kvæmdir og bíla­við­gerðir og hins vegar verndar það mikil­væg störf í iðn­greinum,” segir Hilmar.

Alls er búið að endur­greiða sam­tals rúm­lega 12,2 milljarða vegna vinnu sem fram­kvæmd var frá mars 2020 til ára­móta 2020 sam­kvæmt upp­lýsingum frá Skattinum en alls nemur fjöldi af­greiddra endur­greiðslu­beiðna vegna tíma­bilsins rúm­lega 40.000 á fyrstu níu mánuðum 2020.

Um 4,2 milljarðar voru endur­greiddir vegna endur­bóta og við­halds á í­búðar­hús­næði á tíma­bilinu, af því voru 1,7 milljarðar vegna ný­byggingar á í­búðar­hús­næði og endur­greiðsla til byggingar­aðila nam 5,6 milljörðum. Endur­greiðslur vegna bif­reiða­við­gerða námu 264 milljónum. Endur­greiðslur til líknar­fé­laga námu tæpum 92 milljónum og endur­greiðslur til sveitar­fé­laga 295 milljónum.