Anna Hrefna Ingimundardóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að það stefni í krefjandi samningaviðræður í haust.„Það er útlit fyrir það ef marka má þau orð sem hafa verið látin falla í fjölmiðlum, sérstaklega eftir stýrivaxtaákvörðun Seðlabankans,“ segir Anna Hrefna en bætir við að á sama tíma heyrist mjög sterk varnaðarorð frá Seðlabankanum og fleirum.

„Í álitsgerð fjármálaráðs um fjármálaáætlun kemur fram að það skipti miklu máli fyrir íslenskt efnahagslíf og verðbólguþróun hvernig tekst til við kjarasamningsgerð. Hætt sé við höfrungahlaupi launa og verðlags í núverandi ástandi.“

Drífa Snædal, forseti ASÍ, segir að fram undan sé mikið óvissutímabil. Verðbólga og vaxtahækkanir geri það þó að verkum að verkalýðshreyfingin verði að fara fram á kjarabót.

„Það er erfitt að segja til um hver staðan verður í haust þegar kjarasamningar losna. Ef við erum að fara inn í vaxtahækkunarhrinu, ef stríðið heldur áfram og verðbólgan verður mikil, þá mun það allt hafa áhrif. Við vitum ekki hvaða stöðu við verðum í. Þetta er vond staða og fyrirsjáanleikinn lítill,“ segir Drífa og bætir við að mikilvægt sé að launafólk á Íslandi tryggi að það fái sinn hlut í framleiðniaukningunni.

„Ef við lítum 30 ár aftur í tímann þá hefur ekki verið samið um launahækkanir umfram framleiðniaukningu að undanskildum árunum 2009 og 2010 en það var bara til að ná upp kjaraskerðingunni.“

Anna Hrefna segir að mikilvægt sé að standa vörð um kaupmáttinn.

Anna Hrefna Ingimundardóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

„Það er fyrst og fremst aukinn kaupmáttur en ekki nafnlaunahækkanir sem skila bættum lífskjörum til heimila. Eins og við sáum í ritinu Peningamál, sem kom út samhliða vaxtaákvörðuninni, þá var gerð ákveðin greining á því hvaða áhrif viðbótarlaunahækkanir höfðu í þessu efnahagsástandi. Þar kom fram að það er mjög takmarkað svigrúm til frekari launahækkana án þess að það komi niður á kaupmætti því það minnkar eftirspurn eftir vinnuafli en eykur á sama tíma verðbólguþrýsting sem leiðir til hærra vaxtastigs en ella.“

Drífa segir jafnframt að vissulega séu atvinnugreinarnar misvel staddar og með mismikið svigrúm til launahækkana.„Það er samt staðreynd að sumar greinar standa mjög vel. Til dæmis fiskurinn og álið en auðvitað hefur maður áhyggjur af stöðu ferðaþjónustunnar. Það hefur stundum verið þannig að það sé samið um auka álag í ákveðnum greinum. Í kjaraviðræðum framtíðarinnar verður skattkerfið miklu fyrirferðarmeiri þáttur. Það er eitthvað sem þarf að skoða.“

Anna Hrefna segir að ákjósanlegt væri ef auðveldara væri að taka tillit til ólíkrar stöðu atvinnugreina þegar kemur að kjarasamningsgerð.„Atvinnurekendur hafa kallað eftir meiri sveigjanleika hvað það varðar. Það er gjarnan eitt látið yfir alla ganga í stað þess að taka tillit til hversu ólík staðan er milli atvinnugreina. Þetta hefur hins vegar verið erfitt í framkvæmd með okkar kjarasamningalíkan.“

Drífa segist vera opin fyrir því að endurskoða ákveðna þætti í vinnumarkaðsmódelinu hér á landi.

Drífa Snædal, forseti ASÍ.

„Við höfum verið tilbúin til að byrja viðræður fyrr en atvinnurekendur hafa dregið lappirnar. Það er ýmislegt sem hefur þurft að ræða í kjölfar síðustu kjarasamninga sem ekki hefur fengist samtal um. Það væri óskandi að fólk væri tilbúið í viðræður fyrr til dæmis.“

Anna Hrefna bætir við að ýmislegt megi gera til að bæta vinnumarkaðsmódelið hér á landi.„Við ættum að fylgja fyrirmynd norræna líkansins og tileinka okkur það besta frá hinum Norðurlöndunum þar sem heimildir ríkissáttasemjara eru til að mynda víðtækari. Einnig er eðlilegt að útflutningsgreinar og iðnaður leiði launaþróun því þar er svigrúmið til launahækkana markað.“

Seðlabankinn tilkynnti um 1 pró­sentustigs stýrivaxtahækkun í síðustu viku og standa stýrivextir nú í 3,75 prósentum.

Drífa segir að hækkunin hafi vera fyrirséð en hún sé afleiðing af ákveðnum mistökum sem Seðlabankinn gerði áður.„Seðlabankinn réðst í miklar vaxtalækkanir frekar en að beita öðrum tækjum. Maður hefur áhyggjur af því að komandi vaxtahækkanir muni bitna á almenningi og hann muni þurfa að taka skellinn eina ferðina enn.“

Anna Hrefna segir að Seðlabankinn hafi ekki átt annarra kosta völ en að hækka stýrivexti í ljósi þess að verðbólgan sé komin í 7,2 prósent, verðbólguspá Seðlabankans hafi verið hækkuð frekar og verðbólguvæntingar séu að aukast.

„Þessi vaxtahækkun var viðbúin í ljósi verðbólguþróunar og þeirrar staðreyndar að við erum að sjá slakann hverfa úr hagkerfinu. Við vitum að vaxtastig hefur verið hærra hér á landi en það hefði þurft að vera vegna þess að nafnlaunahækkanir hafa iðulega verið umfram það sem samræmist framleiðnivexti og verðstöðugleika. Til að mynda hafa laun hækkað þrefalt meira hér á landi en á hinum Norðurlöndunum undanfarna tvo áratugi. Á sama tíma hefur verðbólga reynst fjórfalt meiri og vaxtastig fimmfalt hærra.“

Óeðlilegt að hið opinbera leiði launaþróun

Viðmælendur Markaðarins eru sammála um að það sé óeðlilegt að hið opinbera leiði launaþróun í landinu.

„Það er auðvitað afleit þróun. Þróunin þarf að eiga sér stað í samkeppnisumhverfi og það setur almenna markaðinn í erfiða stöðu þegar hið opinbera semur um launahækkanir umfram framleiðniaukningu,“ segir Anna Hrefna og bætir við að huga þurfi vel að þessum málum í komandi kjarasamningum, ekki síst í ljósi þess hvar opinber fjármál standa.

Drífa segir það vera eðlilegra að launaþróun sé leidd af almenna markaðnum. „Það kemur manni spánskt fyrir sjónir að í síðustu kjarasamningum var talað um að lyfta láglaunafólki sérstaklega og síðan er samið við BHM á allt öðrum nótum.“