Sólarþorsti er kominn í landann, sem bókar ferðir á vinsæla sólarlandastaði af töluverðu kappi. Bókunartölur fara hækkandi hjá ferðaskrifstofum. Þó að næstu jól innifeli fremur fáa frídaga liggur straumurinn til Tenerife.

„Það sem kom okkur á óvart var eftirspurnin til Tenerife um jólin. Við fylltum strax tvær vélar og erum búin að bæta við þremur og þær eru langt komnar,“ segir Tómas J. Gestsson, framkvæmdastjóri Heimsferða. Þráinn Vigfússon, hjá VITA, tekur í sama streng. „Jólin á Tenerife voru uppseld og það var bætt við aukaferð sem er nálægt því að vera uppseld.“

Ferðaþorsti landsmanna er orðinn mikill eftir Covid og löngun eftir hvíld við sundlaugarbakka í þrjátíu gráðum er mikil. Þótt jólahátíðin í ár innihaldi ekki marga frídaga verða gífurlega margir Íslendingar þar úti. Birgir Jónsson, forstjóri Play, segir að hann sé upp með sér að fólk treysti nýjasta ferðafélagi landsins fyrir ferðum um jólin. „Íslendingar eru greinilega mjög sólarþyrstir því það er mikið keypt af ferðum til Tenerife í kringum jólin og næstu páska. Það er jákvætt fyrir okkur því við erum ný á markaðnum, að fólk er að treysta okkur fyrir svona mikilvægum ferðum með stórfjölskyldunni. Við erum stolt af því og tökum því alvarlega,“ segir forstjórinn. Hann býst við að aukaflugum verði bætt við til Tenerife um jólin miðað við eftirspurnina.

Birgir Jónsson, forstjóri Play

Vel bókað inn í haustið

Hjá Icelandair fengust þær upplýsingar að ferðaáhuginn hafi aukist mikið undanfarna daga. Vel sé bókað inn í haustið og veturinn. „Við sjáum að með auknum bólusetningum í heiminum og fækkandi smitum hafa Íslendingar verið mjög fljótir að taka við sér,“ segir Birna Ósk Einarsdóttir hjá sölu- og þjónustusviði Icelandair.

Tómas segir að haustið sé að bókast vel og bjartsýni með ferðir í sumar. Fyrsta flug Heimsferða verður á laugardag. Byrjað verði rólega en svo fari allt á fullt. „Við erum að sjá margar stórar bókanir þar sem fjórir til fimm eru saman á hverri bókun. Það er að lifna yfir þessu og svo hefur nú veðrið líka ekki verið gott í borginni,“ segir hann.

Þráinn segir að sumarið líti vel út hjá Vita. Það séu ekki mörg sæti eftir í júní. „Almennt er október vel bókaður í sólina til Alicante og Tenerife. Straumurinn liggur þangað. Það sem er óvenjulegt er að nokkrar brottfarir eru uppseldar í október. Við sjáum líka að barnafjölskyldur eru að koma sterkar inn. Fólk með börn í leik- og grunnskóla er mikið að bóka seinni part sumars út í sólina,“ segir Þráinn. ■