Stefnir, sjóðastýringarfélag í eigu Arion banka, hefur safnað í 16 milljarða framtakssjóð, SÍA IV. Áskriftarloforð urðu 20 milljarðar og því var umtalsverð umframeftirspurn. Fjárfest verður í fimm til sex óskráðum fyrirtækjum fyrir um tvo til fjóra milljarða að jafnaði. Leitast verður eftir að fjárfesta í fyrirtækjum í ólíkri starfsemi en sem hvert um sig eru leiðandi á sínu sviði. Þetta segir Arnar Ragnarsson, forstöðumaður sérhæfðra fjárfestinga hjá Stefni, í samtali við Markaðinn.

„Þetta er stærsti framtakssjóðurinn fram til þessa þar sem áskriftarloforðum er safnað og því næst hefst vinna við að finna fjárfestingartækifæri,“ segir hann. Fram að því var SÍA III stærsti sjóður Stefnis, en í hans tilviki var safnað 12,8 milljörðum króna, hann var því um þremur milljörðum króna minni en SÍA IV.

Hverjir leggja sjóðnum til fé?

„Það eru fyrst og fremst lífeyrissjóðir og aðrir stofnanafjárfestar, tryggingafélög og verðbréfasjóðir. Framtakssjóðir henta vel þeim sem eru með stór og dreifð eignasöfn og fjárfesta til langs tíma enda er verið að binda fjármuni í sjóðnum í um tíu ár. Það eru gefin fjögur ár til þess að finna fjárfestingartækifæri og um fimm ár til að vinna úr hverri fjárfestingu.“

Af hverju heldurðu að það hafi verið umframeftirspurn hjá SÍA IV?

„Stofnanafjárfestar eru að leita eftir fjölbreyttari fjárfestingarkostum í lágvaxtaumhverfi. Fyrirtæki skráð í Kauphöll eru að mörgu leyti einsleit og þeim hefur lítið fjölgað á undanförnum árum. Með því að fjárfesta í framtakssjóðum gefst tækifæri til að fjárfesta með fjölbreyttari hætti í atvinnulífinu,“ segir hann.

Arnar bendir á að flestar skráningar á hlutabréfamarkað frá hruni séu runnar undan rifjum framtakssjóða. Stundum með skráningu beint á markað, eins og í tilviki Haga, en í öðrum tilvikum sé breidd skráðra fyrirtækja aukin með kaupum á fyrirtækjum eins og þegar N1 keypti Festi.

Af hverju brugðuð þið ekki á það ráð að stækka sjóðinn í ljósi umframeftirspurnar?

„Við lögðum upp með að sjóðurinn yrði um 15 milljarðar að stærð og vildum halda okkur við það. Við mátum út frá þeim auðlindum sem við höfum úr að spila að sjóður sem fjárfestir í fimm til sex fyrirtækjum henti okkur vel. Það er mikil vinna að fylgja hverri fjárfestingu eftir og miðað við þau tækifæri sem við höfum verið að sjá teljum við að þetta sé hentug stærð,“ segir Arnar.

Arnar bendir á að flestar skráningar á hlutabréfamarkað frá hruni séu runnar undan rifjum framtakssjóða.
Fréttablaðið/Ernir

Hann segir að SÍA vilji hafa áhrif á framgang fyrirtækjanna með stjórnarsetu og því sé horft til þess að eignarhlutur í félögum sé nægilega stór til að tryggja slík áhrif. Horft sé til þess að vinna með einkafjárfestum eða stjórnendum sem hafi sérþekkingu á viðkomandi rekstri þegar það á við og draga þannig að borðinu aukna þekkingu. Jafnframt bjóði SÍA sjóðsfélögum að taka þátt í einstaka verkefnum þegar um stærri fjárfestingar sé að ræða.

Hvernig er landslagið að fjárfesta þegar hagkerfið er að fara taka við sér eftir erfiðan COVID-vetur?

„Þetta er góður tími til að fjárfesta. Almennt skapast mikil fjárfestingatækifæri í og rétt eftir kreppu. Það hefur verið mikil óvissa í efnahagslífinu frá árinu 2019. Flugfélagið WOW air féll, óvissa var um hvernig mörg fyrirtæki myndu fóta sig í kjölfar launahækkana sem samið var um í kjarasamningum og loks erfiðleikar tengdir COVID-19.

Mörg fyrirtæki hafa beðið með að sækja fram þar til stjórnendur þeirra töldu sig geta gert það með meiri vissu. Af þeim sökum hefur lítið verið um kaup á óskráðum fyrirtækjum að undanförnu. Við finnum að nú er að koma aftur hreyfing á málin. Það eru ýmis tækifæri: sum fyrirtæki þurfa að sækja aukið hlutafé til að styrkja efnahaginn, önnur vilja sameinast og svo eru ýmsir stjórnendur að leita tækifæra til þess að auka framleiðni í rekstri í ljósi launa- og annarra verðhækkana. Því til viðbótar hefur verið fjárfest umtalsvert í sprotafyrirtækjum og einhver þeirra þurfa frekara fjármagn til að fjármagna vöxt.“

Hvernig horfir verðlagning fyrirtækja við nú þegar vextir eru í sögulegu lágmarki. Þeir munu ef til vill vera orðnir hærri eftir tvö ár. Leiðir það af sér að fyrirtæki verði keypt á of háu verði?

„Á sama tíma og vextir hafa lækkað hefur verið samdráttur víða og ýmiss kostnaður hækkað. Af því leiðir að rekstrarspár eru almennt lægri, sem hefur áhrif á virði fyrirtækja. Horfur í rekstri munu að öllum líkindum hafa batnað þegar vextir taka að hækka að nýju. Við teljum okkur því geta fjárfest í fyrirtækjum á skynsömu verði.“

Hvernig hafa hinir framtakssjóðirnir ykkar gengið?

„Þeir hafa gengið vel. Fyrstu tveir sjóðirnir hafa skilað fjárfestum mjög góðri ávöxtun og greitt út umtalsvert meiri fjármuni en þeir tóku á móti. Hér þarf líka að horfa til þess að stór hluti útgreiðslna úr þessum sjóðum var í formi skráðra hlutabréfa sem hafa hækkað verulega í virði. Hvað SÍA III varðar, þá lauk sá sjóður nýverið sínu fjárfestingartímabili svo útgreiðslur eru enn sem komið er takmarkaðar. Við teljum eignasafn sjóðsins hins vegar sterkt og gerum ráð fyrir að umtalsvert virði muni raungerast á næstu árum samhliða sölu eigna.“

Arnar segir að framtakssjóðir Stefnis hafi fjárfest fyrir um 50 milljarða frá árinu 2011.