Icelandair stefnir að því að fljúga til 32 áfangastaða í millilandaflugi sumarið 2021. Þá stefnir Air Iceland Connect að því að hefja áætlunarflug til Vestmannaeyja í innanlandsflugi næsta sumar.

Áframhaldandi áhrif heimsfaraldur

„Flugáætlun Icelandair og Air Iceland Connect fyrir árið 2021 er nú komin í sölu en hún er minni í sniðum en síðustu ár sökum áframhaldandi áhrifa heimsfaraldursins. Gert er ráð fyrir að heildarsætaframboð verði um 25-30% minna en sumarið 2019. Uppbygging leiðakerfis Icelandair verður einfaldari og áhersla lögð á lykiláfangastaði félagsins. Einföldun leiðakerfisins gerir félaginu kleift að bregðast hratt við síbreytilegum markaðsaðstæðum en áfram er gert ráð fyrir að aðlaga þurfi framboð að eftirspurn eftir því sem fram vindur," segir í tilkynningu frá félaginu.

Eðli málsins samkvæmt er flugáætlunin háð því að áhrif Covid-19 fari minnkandi á mörkuðum félagsins í Evrópu og N-Ameríku og að fyrirkomulag landamæraskimunar hér á landi hafi ekki jafn takmarkandi áhrif á ferðalög og nú er raunin.

Tenerife er nýr áfangastaður hjá Icelandair.

Félagið áætlar að fljúga til 22 áfangastaða í Evrópu, þ.e. Osló, Bergen, Kaupmannahafnar, Billund, Stokkhólms, Helsinki, Amsterdam, Parísar, Berlínar, Hamborgar, Frankfurt, Munchen, Genf, Zurich, Brussel, London, Glasgow, Manchester, Dublin, Madrid, Mílanó og Tenerife. Þá áætlar félagið að fljúga til tíu áfangastaða í N-Ameríku, þ.e. Boston, New York, Seattle, Minneapolis, Washington, Denver, Chicago, Toronto, Vancouver og Montréal. Félagið mun jafnframt fljúga reglulega til Alicante í leiguflugi.

„Þrátt fyrir núverandi aðstæður vegna útbreiðslu kórónuveirunnar er mikilvægt að horfa til framtíðar. Við vinnum hörðum höndum að því að undirbúa viðspyrnuna svo við getum brugðist hratt við um leið og staðan breytist til hins betra. Flugáætlun Icelandair fyrir sumarið 2021 byggir á þeim forsendum að aðstæður á mörkuðum okkar séu farnar að batna, ferðatakmarkanir hafi verið rýmkaðar og að reglur á landamærum á Íslandi hafi ekki jafn takmarkandi áhrif á ferðalög og nú er. Með enn sveigjanlegri bókunarskilmálum viljum við gera fólki kleift að bóka flug án þess að hafa áhyggjur – við komum öllum sem ætla að ferðast á áfangastað og leyfum breytingar á flugbókun hvenær sem er án auka kostnaðar," segir Bogi Nils Bogasson, forstjóri Icelandair í tilkynningunni.

„Það er markmið okkar að tryggja öflugar flugsamgöngur til og frá Íslandi og yfir Atlantshafið. Þá höfum við fulla trú á því að Ísland verði áfram eftirsóttur áfangastaður ferðamanna og þess vegna er mikilvægt að tryggja að íslenskir ferðaþjónustuaðilar verði vel í stakk búnir til að taka á móti ferðamönnum á ný. Við ætlum að vera tilbúin um leið og aðstæður leyfa og leiða þá uppbyggingu,“ segir hann að lokum.