Miðasölufyrirtækið Tix hyggst bjóða upp á sína þjónustu á Bandaríkjamarkaði en fyrirtækið býður nú þegar upp á þjónustu sína í Danmörku, Noregi, Svíþjóð, Finnlandi, Bretlandi, Hollandi og Belgíu, auk Íslands.

„Nú eru Bandaríkin að bætast við hjá okkur og erum við nú þegar búin að ráða okkar fyrsta starfsmann þar í landi,“ segir Hrefna Sif Jónsdóttir, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs hjá Tix.

„Við einblínum á að þjónusta tónlistar-, leik- og menningarhús og bjóðum þeim að nota kerfið okkar. Við seljum fyrir hús á borð við Hörpu en það eru ýmis sambærileg menningarhús sem nýta vörur okkar og þjónustu. En erlendis erum við ekki endursöluaðili miðanna sjálfra eins og við erum hér á Íslandi. Við erum ekki að selja miðana sjálf heldur að bjóða upp á og þjónusta kerfið.“

Hrefna Sif Jónsdóttir, rekstrarstjóri Tix.
Aðsend mynd.

Hrefna bætir við að þó svo að Covid-19 faraldurinn hafi verið mikil áskorun hafi fyrirtækinu gengið vel og stefni á frekari vöxt.

„Við ákváðum að grípa fyrirtækið í Covid og kynna vöruna okkar á fleiri stöðum. Við vildum nýta þennan tíma til að fara á nýja markaði í stað þess að setja í baklás og bíða.

Hún segir jafnframt að síðan faraldurinn hafi skollið á hafi fyrirtækið opnað í Belgíu, Hollandi, Finnlandi og Bretlandi.

„Auðvitað var Covid mikil áskorun en okkur hefur gengið vel og við höfum almennt ekki þurft að fara í uppsagnir eða slíkt. Við höfum nýtt okkur þá aðstoð og styrki sem eru í boði í hverju landi sem eru misjafnir eins og gengur og gerist.“

Hún bætir við að fyrirtækið stefni á frekari vöxt og sé sífellt með augun á mögulegum nýjum tækifærum.

„Við ákváðum að tilkynna áform okkar um að fara á Bandaríkjamarkað á þessum tímapunkti, ekki síst sökum þess að við erum á leið til Flórída í næstu viku þar sem við verðum á ráðstefnunni INTIX með stóran bás til að kynna okkar vörur.“