Stefnt er að því að opna fjórar til fimm „klárar“ matvöruverslanir sem bera munu nafnið Nær fyrir árslok 2022 á þéttbýlum svæðum á höfuðborgarsvæðinu. Sú fyrsta verður opnuð í Urriðaholti í Garðabænum skömmu eftir að nýtt ár gengur í garð. Þetta segir Þórður Reynisson, framkvæmdastjóri Nær. Aðrir stofnendur og meðeigendur Nær eru Þór Sigfússon, stofnandi Íslenska sjávarklasans og fyrstu mathallanna hérlendis, og Sara Björk Guðmundsdóttir, sölu- og markaðsstjóri verslunarinnar.

Verslanir Nær verða hvorki með starfsfólk í afgreiðslu né sjálfsafgreiðslukassa heldur fara kaupin fram í gegnum snjallsíma. „Fólk sýnir QR-kóða til að komast inn í læsta verslun, skannar inn vörur og leggur þær í poka og gengur að lokum frá kaupunum í gegnum símann,“ segir Þórður.

Í versluninni verði starfsmenn sem fylli á hillur og annist þrif. „Segja má að í staðinn fyrir að vera með afgreiðslufólk séum við með starfsfólk í tæknimálum. Störf hverfa því ekki úr virðiskeðjunni,“ segir hann.

Sara Björk segir að lögð sé áhersla á að innkaup í gegnum símann verði eins auðveld og kostur er. „Þetta þarf að vera einfalt og þægilegt. Annað fælir frá viðskiptavini,“ segir hún.

Þór Sigfússon, stofnandi Íslenska sjávarklasans og fyrstu mathallanna hérlendis.

„Við viljum færa verslanir aftur í hverfin,“ segir Þórður. „Með því að nýta tæknina getum við opnað verslanir í þokkalega þéttbýlum hverfum sem eru opnar allan sólarhringinn. Auk þess höfum við áhuga á að opna verslanir á landsbyggðinni þar sem opnunartími matvöruverslana er ekki langur.“

Verslunin sem opnuð verður í Urriðaholti er 230 fermetrar að stærð. Við hlið hennar verða aðrir rekstraraðilar. Hugmyndin er, að sögn Þórðar, að bjóða upp á um 85 prósent af hefðbundinni matarkörfu fjölskyldna í versluninni.

„Urriðaholt er ungt hverfi. Um 70 prósent af íbúum hverfisins eru undir fertugu. Þess vegna er staðsetningin tilvalin fyrir okkur enda er mikið um ungar fjölskyldur sem þurfa á þjónustu að halda. Foreldrar ungra barna þurfa oft að geta stokkið til á skömmum tíma í verslun til að kaupa barnamat, bleyjur, mjólk og svo framvegis,“ segir hann.

„Urriðaholt er ungt hverfi. Um 70 prósent af íbúum hverfisins eru undir fertugu.“

Aðspurður hvar Nær staðsetji sig í verði segir Þórður að það verði nær lágvöruverslunum en klukkubúðum. „Annars yrðum við fljót að verðleggja okkur út af markaðnum,“ segir hann.

Sara Björk nefnir að það sé mikilvægt að neytendur hafi efni á að versla við Nær og bendir á að í fyrstu versluninni verði markhópurinn barnafjölskyldur.

Þórður segir að framboðið í verslunum verði aðlagað þörfum hvers hverfis fyrir sig en boðið verður upp á úrval af hollum tilbúnum réttum. „Það eru þægindi sem nútímafólk sækir í æ meira mæli í,“ bendi hann á.

Sara Björk segir að matarfrumkvöðlum verði boðið upp á veglegt hillupláss. „Það er oft erfitt fyrir matarfrumkvöðla sem eru að stíga sín fyrstu skref að framleiða fyrir stóru matvöruverslanirnar. Þeir eiga erfitt með að anna eftirspurn. Þess vegna er tilvalið fyrir frumkvöðla að stíga sín fyrstu skref með okkur á meðan þeir eru að byggja upp framleiðslugetu,“ segir hún.

Þau segja að öryggiskerfi verslunarinnar sé öflugt. Enginn komist inn án þess að hafa auðkennt sig með rafrænum skilríkum. „Það hefur ekki borið á meiri þjófnaði í snjöllum verslunum en hefðbundnum verslunum á Norðurlöndunum. Fólk er heiðarlegt,“ segir Þórður.

Klárar verslanir í Asíu og á Norðurlöndum

„Klárar“ verslanir hafa rutt sér til rúms í Asíu, sérstaklega í Japan. Eins hafa Norðurlöndin sótt í sig veðrið á þessu sviði og því er eðlilegt að stíga skrefið hér á landi,“ segir Þórður.

Í ljósi þess að þið skilgreinið ykkur sem tæknifyrirtæki, hvers vegna er Nær ekki netverslun?

„Við teljum að hverfin vanti meiri þjónustu,“ segir Þórður.

Sara Björk segir að fólk vilji velja sína ferskvöru, eins og grænmeti og ávexti, sjálft. Það sé ekki hægt í netverslun.

Þórður segir að reynslan sýni að Íslendingar vilji enn versla í hefðbundnum verslunum.