„Við höfum vitað að þessi vegferð með Arion banka ætti sér upphaf og endi, og nú erum við að skoða hvað tekur við,“ segir Salóme Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandic Startups, í samtali við Fréttablaðið.

Eins og greint var frá í Markaðinum í vikunni hyggst Arion banki hætta fjárstuðningi við Startup Reykjavík viðskiptahraðalinn. Bankinn hefur stutt við verkefnið frá árinu 2012 í samstarfi við Icelandic Startups sem er rekið án hagnaðarsjónarmiða og aðstoðar frumkvöðla við að koma sprotafyrirtækjum á koppinn. Salóme segir að Arion banki eigi vörumerkið Startup Reykjavík og því sé í höndum bankans að ákveða hvað hann vilji gera með það.

„Þó að frumkvöðlakeppnin Gulleggið sé okkar rótgrónasta verkefni hefur Startup Reykjavík sannarlega verið okkar flaggskip, ég ætla ekki að draga úr því. Þetta var fyrsti hraðallinn sem komið var á fót á Íslandi og mörg önnur verkefni hafa síðan byggt á þessu módeli,“ segir Salóme.

Startup Reykjavík er tíu vikna viðskiptahraðall og þátttakendur fá 2,4 milljónir króna frá Arion banka í skiptum fyrir sex prósenta hlut í sprotafyrirtækinu. Frá árinu 2012 til ársbyrjunar 2019 nam heildarfjárfesting Arion banka í Startup Reykjavík 176 milljónum króna. Í sumar höfðu 78 fyrirtæki farið í gegnum hraðalinn.

„Þegar við fórum af stað með þetta verkefni árið 2012 var sprotasamfélagið á Íslandi nokkuð ómótað. Á svipuðum tíma var Sjávarklasinn stofnaður og stór sprotaráðstefna Startup Iceland leit dagsins ljós. Umhverfið sem áður var óskipulagt fékk ákveðinn strúktúr og hefur síðan þá vaxið og þróast. Við erum þakklát fyrir þetta samstarf sem við höfum átt við bankann, það hefur leitt af sér ýmis önnur tækifæri, vakið athygli á alþjóðlegum vettvangi og skapað mikið virði fyrir íslenskt nýsköpunarsamfélag.“

Margt spennandi á teikniborðinu

Salóme segir að Icelandic Startup sé fjármagnað af háskólum, hagsmunasamtökum í atvinnulífinu og fjölmörgum öðrum fyrirtækjum og að önnur verkefni muni fylla í skarðið.

„Við erum til að mynda að vinna með Landsvirkjun og Samráðsvettvangi um loftslagsmál og grænar lausnir að nýjum viðskiptahraðli sem mun einblína á að draga fram nýjar lausnir á sviði loftslagsmála og í orkutengdum iðnaði. Það er mikið að gerast í nýsköpun á Íslandi og margt spennandi á teikniborðinu.”