Út­lit er fyrir á­fram­haldandi fækkun starfa á næstu sex mánuðum og skortur á starfs­fólki er lítill, eins og verið hefur allt árið. Þá er gert ráð fyrir því að fjár­festingar muni dragast mikið saman milli ára. Þetta er meðal niður­staðna Gallup könnunar meðal stjórn­enda 400 stærstu fyrir­tækja landsins sem sýnir at­vinnu­líf í djúpum og dýpkandi sam­drætti.

Sam­tök at­vinnu­lífsins í sam­starfi við Seðla­banka Ís­lands standa að reglubundinni könnun á stöðu og fram­tíðar­horfum stærstu fyrir­tækja á Ís­landi. Á könnunar­tíma­bilinu voru sjö mánuðir liðnir frá upp­hafi kórónu­kreppunnar.

Þriðjungur stjórnenda búast við fækkun starfsmanna

Um 29 þúsund starfs­menn starfa hjá fyrir­tækjunum í könnuninni. 34% stjórn­enda búast við fækkun starfs­manna en 11% við fjölgun á næstu sex mánuðum. Lítill skortur er á starfs­fólki og hafa þær að­stæður ekki breyst á árinu. 92% stjórn­enda segja ekki skort á starfs­fólki en 8% stjórn­enda segja skort vera fyrir hendi. Skortur á starfs­fólki er mestur í iðnaði.

Ætla má að starfs­mönnum fyrir­tækjanna í heild fækki um 2% á næstu sex mánuðum sem er sama á­ætlaða fækkun og í könnuninni í maí síðast­liðnum. Sé niður­staðan yfir­færð á allan al­menna vinnu­markaðinn gæti störfum fækkað um 2.600 á næstu sex mánuðum. Fækkunin er 3.000 hjá þeim sem á­ætla fækkun en fjölgunin 400 hjá þeim sem á­ætla fjölgun.


Fækkun starfa er fram­undan í öllum at­vinnu­greinum. Stjórn­endur í ferða­þjónustu sjá fram á mesta fækkun starfs­manna en þar á eftir kemur fjár­mála­starf­semi, verslun og iðnaður. Minnst starfs­manna­fækkun er á­ætluð í sjávar­út­vegi en þar á eftir kemur byggingar­starf­semi og verslun.

Heimild:SA

Slæmt á­stand í öllum at­vinnu­greinum

Vísi­tala efna­hags­lífsins, sem endur­speglar mun á fjölda stjórn­enda sem meta að­stæður góðar og slæmar, er ná­lægt núlli eins og síðustu könnun í maí síðast­liðnum.

Um 85% stjórn­enda telja að­stæður slæmar í at­vinnu­lífinu, 2% telja þær góðar en 13% eru hlut­lausir. Matið er lakast í byggingar­iðnaði þar sem allir telja að­stæður slæmar en já­kvæðast í verslun þar sem 8% telja að­stæður góðar og 18% eru hlut­lausir.

Vísitala efnahagslífsins.
Heimild:SA

Verð­bólgu­væntingar stjórn­enda svipaðar og áður

Að jafnaði vænta stjórn­endur þess að gengi krónunnar veikist um 1,2% á næstu 12 mánuðum.

Verð­bólgu­væntingar stjórn­enda eru svipaðar og áður, eða 3% að ári liðnu. Þeir vænta þess einnig að verð­bólgan verði 3% eftir tvö en að hún verði við verð­bólgu­mark­mið Seðla­bankans eftir fimm ár.

Þá gefur könnunin til kynna mikinn sam­drátt fjár­festinga í at­vinnu­lífinu á árinu. Um 46% stjórn­enda búast við að fjár­festingar fyrir­tækjanna dragist saman milli ára en 13% býst við aukningu. Horfur eru á miklum sam­drætti fjár­festinga í öllum at­vinnu­greinum, en lang­mest í ferða­þjónustu.

Launa­kostnaður hefur lang­mest á­hrif á verð­bólgu


Stjórn­endur voru spurðir um þá þætti sem mest á­hrif hafa til hækkunar á verði á vöru og þjónustu fyrir­tækjanna á næstu 6 mánuðum. Hækkun launa­kostnaðar vegur lang­þyngst þar sem 46% stjórn­enda setja launa­kostnað í fyrsta sæti sem verð­hækkunar­til­efni og 26% til við­bótar setja hann í annað sæti. Hækkun að­fanga­verðs er af­gerandi í öðru sæti þar sem 28% stjórn­enda telja að að­föng hafi mest á­hrif og 17% setja þau í annað sæti. Aðrir þættir vega mun minna.