Tui, stærsta ferðaskrifstofa Bretlands, hefur sagt starfsfólki að það þurfi einungis að mæta á skrifstofuna einu sinni í mánuði. Er um að ræða breytta tilhögun í ljósi þeirra áhrifa sem Covid-19 heimsfaraldurinn hefur á það hvernig fólk hagar sinni vinnu. Þetta kemur fram í frétt Financial Times.

Ferðaskrifstofan segir að það veiti starfsmönnum fullkominn sveigjanleika. „Vinna er eitthvað sem við gerum, ekki hvert við förum,“ sagði í bréfi til starfsmanna.

Tiu er með yfir tíu þúsund manns í vinnu. Þessi sveigjanleiki mun ekki gilda fyrir flugáhafnir, flugvirkja eða starfsfólk útibúa. Fyrirtækið, sem á rætur að rekja til Þýskalands, er að skoða það að breyta vinnukomulaginu með svipuðum hætti víðar í Evrópu. Breytingar kunna að leiða til endurskoðunar á fasteignarekstri félagsins.

Í næstu viku munu bresk stjórnvöld falla frá reglum hvar fólk er beðið um að vinna heima hjá sér þegar hægt er að koma því við og þá verður fólk hvatt til að snúa aftur til vinnu og hægt og rólega.

Stjórnendur margra fyrirtækja uppgötvuðu að það að leyfa fólki að vinna heima eða með því að blanda saman heimavinnu og að mæta á skrifstofuna fellur betur í kramið hjá starfsfólki. Auk þess komi það jafnvel betur út fyrir starfsemi fyrirtækjanna. Umtalsverðar breytingar á vinnufyrirkomulagi gætu því verið í vændum fyrir milljónir manna.

Samkvæmt könnum Accenuture á meðal 1.400 manns sem starfa við fjármálaþjónustu myndu tveir þriðju kjósa að mæta á skrifstofuna tvo daga í viku eða minna. Innan við tíu prósent svarenda myndu vilja mæta aftur fimm daga í viku á skrifstofuna.