Meginstarfsemi Fjármálaeftirlitsins verður áfram í Turninum á Höfðatorgi eftir að samruninn við Seðlabankann er genginn í gegn og þangað til annað kemur í ljós. Þetta staðfestir Fjármálaeftirlitið í svari til Markaðarins en starfsmönnum þess var á dögunum greint frá þessari tilhögun.

„Ekkert hefur verið endanlega ákveðið í þessum efnum, en líklegt er að meginstarfsemi Fjármálaeftirlits verði í Katrínartúninu fyrst um sinn,“ segir í svari FME við fyrirspurn Markaðarins.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur áður sagt að ekki sé stefnt að fækkun starfsmanna hjá sameinaðri stofnun FME og Seðlabankans. Starfsmenn FME eru sem stendur 115 talsins en í Seðlabankanum voru þeir 181 í árslok 2018.

Samkvæmt nýsamþykktum lögum mun sameiningin ganga í gegn um áramótin. Þrír varaseðlabankastjórar verða undir Ásgeiri Jónssyni, nýráðnum seðlabankastjóra, og tekur Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri FME, við stöðu varaseðlabankastjóra sem leiðir málefni fjármálaeftirlits.

Í nýlegu viðtali við Viðskiptablaðið sagðist Unnur ekki hafa upplifað sérstaka þörf á því að sameina stofnanirnar og ekki sjá fram á grundvallarbreytingu á starfsemi FME við sameiningu við Seðlabankann.

„Það er verið að teikna þetta svolítið þannig upp að við viðhöldum okkar innviðum, bæði á dýptina og breiddina,“ sagði Unnur. Þá yrði starfsemi eftirlitsins að einhverju leyti aðskilin annarri starfsemi bankans til þess að „verja Seðlabankann þegar eftirlitið tekur ákvarðanir sem styr stendur um“.