Lögreglan í Póllandi hefur handsamað og ákært sölustjóra Huawei Technologies, sem er kínverskur en starfar í landi, fyrir njósnir um pólsk stjórnvöld fyrir Kína. Þetta kemur fram í frétt The Wall Street Journal.

Í desember var fjármálastjóri kínverska tæknifyrirtækisins handtekinn í Bandaríkjunum því þar í landi er litið á fyrirtækið sem ógn við þjóðaröryggi og forskot Bandaríkjanna í tækniþróun.

Pólska lögreglan leitaði á skrifstofu Huawei og heimili hins grunaða og tók skjöl og stafræn gögn.

Lögreglan segir að hinn grunaði, sem ekki hefur verið nafngreindur, hafi útskrifast frá einum af bestu leyniþjónustuskólum Kína. Hann hafi áður starfað fyrri ræðismann Kína í hafnarborginni Gdansk í Póllandi.

Lögreglan hefur einnig handsamað Pólverja, sem er einn af fyrrverandi stjórnendum stofnunar þar í landi sem annast þjóðaröryggismál. Sá stýrði tölvuöryggismálum og þekkti vel til hvernig pólsk stjónvöld dulkóðuðu skilaboð þeirra sem sátu í æðstu embættum.

Mennirnir tveir hafa verið ákærðir fyrir njósnir gegn lýðveldinu, segir lögreglan. Viðurlögin eru allt að tíu ár í fangelsi. Þeir hafa lýst yfir sakleysi sínu.

Talsmaður Huawei sagði að fyrirtækið sé meðvitað um málið og verið væri að kanna það.