Smásölurisinn Hagar mun þurfa að gjaldfæra hjá sér yfir 300 milljóna króna einskiptiskostnað vegna starfsloka Finns Árnasonar forstjóra og Guðmundar Marteinssonar, framkvæmdastjóra Bónus, en tilkynnt var í síðustu viku að þeir hefðu óskað eftir að láta af störfum hjá félaginu. Guðmundur, sem hefur starfað hjá Bónus í nærri þrjá áratugi, er með þriggja ára uppsagnarfrest samkvæmt starfssamningi sínum en uppsagnarfrestur Finns, sem hefur verið forstjóri Haga frá 2005, er hins vegar eitt ár, samkvæmt heimildum Markaðarins.

Finnur hefur verið einn launahæsti forstjórinn í Kauphöllinni undanfarin ár og námu laun og hlunnindi hans á síðasta rekstrarári, sem lauk í febrúar í fyrra, samtals 72,7 milljónum, eða ríflega sex milljónum á mánuði. Þá var Guðmundur með um fimm milljónir í laun á mánuði árið 2018, að því er fram kom í tekjublaði Frjálsrar verslunar. Samkvæmt ákvæðum í starfssamningum Finns og Guðmundar skiptir ekki máli, að sögn þeirra sem þekkja vel til málsins, hvort þeir hafi sjálfir látið af störfum eða verið sagt upp og mun félagið því þurfa að taka á sig umtalsverðan kostnað vegna starfsloka þeirra.

Varlega áætlað munu Hagar þurfa að gjaldfæra hjá sér um 250 milljónir í kostnað við starfslok Guðmundar, vegna launa, lífeyrisgreiðslna og annarra launatengdra gjalda, en í tilfelli Finns verði kostnaðurinn um 100 milljónir. Fram kom í tilkynningu síðastliðinn fimmtudag að Finnur og Guðmundur muni starfa áfram hjá félaginu þangað til eftirmenn þeirra hafa verið ráðnir.

Launakjör æðstu stjórnenda Haga hafa sætt gagnrýni hluthafa um nokkurt skeið, einkum lífeyrissjóða sem fara samanlagt með yfir 60 prósenta hlut í félaginu, og á aðalfundi í júní í fyrra var samþykkt verulega breytt starfskjarastefna fyrir félagið. Þar var meðal annars horft til þess að betri upplýsingar væru veittar um á grunni hvaða samanburðar heildarlaun stjórnenda byggðust, meira gegnsæi væri um hlutfallið milli fastra og árangurstengdra greiðslna og að fjárhæð kaupauka geti að hámarki svarað til fjögurra mánaða grunnlauna forstjóra.

Ljóst hefur verið að gera þyrfti nýja samninga við helstu stjórnendur Haga á grunni þessarar breyttu starfskjarastefnu eftir að hún var samþykkt af hluthöfum. Ágreiningur um breytingar á launakjörum var þó ekki ein af helstu ástæðum starfsloka Finns, og í kjölfarið einnig Guðmundar, hjá félaginu, samkvæmt heimildum Markaðarins.

Guðmundur Marteinsson hefur starfað hjá Bónus í nærri þrjá áratugi.

Sumir af stærstu hluthöfum Haga, meðal annars Samherji, hafa í talsverðan tíma sóst eftir því að nýr maður yrði fenginn í stól forstjóra. Hagar, sem reka verslanir undir merkjum Bónuss og Hagkaupa, eru sagðir hafa orðið undir í samkeppninni á matvörumarkaði undanfarin ár gagnvart sínum helsta keppinaut, Krónunni, sem hefur aukið við markaðshlutdeild sína. Þá nefna eins sumir hluthafar og aðrir sem þekkja vel til rekstrar smásölurisans að stjórnendur hafi legið undir ámæli fyrir að hafa ekki fylgt nægjanlega vel eftir samruna Haga og Olís með markvissari aðgerðaáætlun til að ná fram þeim samlegðaráhrifum sem stefnt var að með sameiningu félaganna.

Stærstu hluthafar Haga eru Gildi lífeyrissjóður með 14,6 prósent, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins á 14,2 prósenta hlut og Lífeyrissjóður verzlunarmanna fer með rúmlega tíu prósenta hlut. Hlutabréfaverð félagsins hefur hækkað um þrjú prósent á síðustu tólf mánuðum. Heildarvelta Haga á fyrstu þremur fjórðungum þessa rekstrarárs nam um 88 milljörðum og hagnaður félagsins var um 2.350 milljónir. Ársuppgjör félagsins verður birt 19. maí næstkomandi.

Í svari við fyrirspurn Markaðarins um hver sé áætlaður heildarkostnaður vegna starfsloka Finns og Guðmundar sögðust Hagar ekki geta veitt þær upplýsingar að svo stöddu. „Verði þær á einhverjum tímapunkti birtar opinberlega, verður það gert samhliða birtingu reikningsskila félagsins,“ sagði í svarinu.