Starfsmönnum Olís hefur fækkað um 100, í 470, og stöðugildum um 70 það sem af er ári. Þetta staðfestir Frosti Ólafsson, forstjóri fyrirtækisins.

„Eins og gefur að skilja hafði Covid-19 faraldurinn veruleg áhrif á eldsneytis- og þægindavörumarkaðinn. Þar munaði mestu um samdrátt í fjölda ferðamanna, en því til viðbótar leiddu sóttvarnaaðgerðir til minni umsvifa og ferðalaga innlendra aðila, einkum framan af,“ segir hann.

Olís hafi brugðist við þessum aðstæðum í byrjun árs í kjölfar heildstæðrar yfirferðar á rekstri félagsins. „Til að mæta tímabundnum samdrætti vegna Covid-19 og gera félagið betur í stakk búið til að mæta þeim áskorunum sem fylgja orkuskiptum á eldsneytismarkaði fór fram umtalsverð endurskipulagning á starfseminni, sér í lagi á smásölusviðinu. Verslun Stórkaupa var aflögð, opnunartími ýmissa þjónustustöðva var endurskoðaður, veitingaframboð aðlagað og tveimur þjónustustöðvum var breytt í sjálfsafgreiðslustöðvar,“ segir Frosti.

Frosti Ólafsson, forstjóri Olís.
Mynd/Aðsend

Hann segir að breytingarnar séu krefjandi fyrir Olís en þær hafa skilað umtalsverðum rekstrarbata nú þegar. „Það er ljóst að Olís þarf áfram að tryggja skilvirkni í rekstri til að mæta framtíðarþróun á eldsneytismarkaði. Í því kemur til með að felast stöðug rýni á skipulag starfseminnar og þjónustuframboð. Á endanum er lykilmarkmiðið að þjóna viðskiptavinum okkar með sem bestum hætti en samhliða tryggja að rekstrarskipulag félagsins standist samkeppni og tímans tönn.“