Hlutfallslega meiri aukning hefur verið í notkun rafrænna skilríkja þessu ári samanborið við síðustu ár. Helst það í hendur við að fólk hafi í auknum mæli reynt að nýta sér rafræna þjónustu í heimsfaraldrinum.

Þetta segir Haraldur A. Bjarnason, framkvæmdastjóri Auðkennis sem sér um útgáfu og umsjón rafrænna skilríkja hér á landi.

Hann segir að stöðugur vöxtur hafi verið í virkjun nýrra skilríkja á þessu ári líkt og síðustu ár. Á móti komi að aðgengi nýrra notenda hafi á tímabili verið takmarkað.

Áður en einstaklingar geta notað rafræn skilríki í fyrsta skipti þurfa þeir að mæta til Auðkennis, í útibú banka eða til fjarskiptafélags til að virkja skilríkin.

Þetta var hægara sagt en gert þegar takmarkanir vegna faraldursins voru hvað harðastar og flestir bankar ákváðu að loka útibúum sínum.

Heilsuvera ýtt undir notkun

Notkun á Heilsuveru, rafrænni þjónustugátt landlæknis og heilsugæslunnar, hefur margfaldast það sem af er þessu ári og má án efa rekja stóran hluta þeirrar aukningar til áhrifa faraldursins.

Hafa heilbrigðisyfirvöld meðal annars hvatt fólk til að notfæra sér Heilsuveru til að skrá sig í sýnatöku vegna COVID-19 og sækja niðurstöður úr þeim.

Nauðsynlegt er að hafa rafræn skilríki til þess að fá aðgang að Heilsuveru og hefur það skapað nokkur vandræði fyrir Auðkenni og umboðsaðila fyrirtækisins.

„Í einhverjum tilvikum hefur fólk farið og fengið sér rafræn skilríki strax í kjölfar sýnatöku svo það hefur búið til smá hræðslu hjá þeim sem hafa þurft að afgreiða skilríkin,“ segir Haraldur.

Alltaf hægt að fara aðrar leiðir

Þríeykið hefur lagt áherslu á að fólk haldi sig heima á meðan það bíður niðurstöðu úr sýnatöku til að draga úr smithættu.

„Svo fólk er jafnvel að fá sér rafræn skilríki sem á ekkert að vera að ferðast. Þannig að við höfum þurft að spá mikið í sóttvörnunum og öllu svoleiðis.“

Í því samhengi minnir Haraldur á að fólk geti alltaf sótt sér þjónustu eftir öðrum leiðum.

„Það á enginn að þurfa rafræn skilríki þó það sé afskaplega þægilegt.“

Til að mynda sé betra að óska símleiðis eftir niðurstöðu sýnatöku hjá heilsugæslu í stað þess að fara í útibú banka eða fjarskiptafyrirtækis með tilheyrandi áhættu.

Fólk hætt að nenna að fara með pappíra

Að sögn Haraldar eru sífellt fleiri þjónustur að bæta við stuðningi við rafræn skilríki og mikill vöxtur í notkun þeirra innan fyrirtækja og stofnanna.

Þá segir hann greinilegt að fyrirtæki séu í auknum mæli að taka upp rafrænar undirskriftir nú þegar mikið er um fjarvinnu og margir vilja forðast að koma saman að óþörfu.

Sífellt fleiri ákveða að nýta sér frekar rafræna þjónustu á tímum heimsfaraldurs.
Fréttablaðið/Ernir

„Fólk er að fatta að það getur undirritað allar fundargerðir með rafrænum hætti, það er engin ástæða til að vera að þvælast með pappíra út um allt. Fyrirtæki eru í mjög miklum mæli að nýta sér þetta í alls konar hluti og farið að nota rafrænar undirskriftir í allri samningagerð og umsóknum. Allt sem þarf að undirrita er hægt að gera með þessari leið. Þetta er svo miklu miklu einfaldara og sparar alveg ógurlegan tíma,“ segir Haraldur.

„Ég held að allir þessir aðilar séu að finna fyrir því að það er aukin krafa hjá fólki að þessi leið sé nýtt. Þegar þú fattar hvað rafræn undirritun er þægileg þá ertu ekki endilega tilbúinn að verða við því að þurfa að mæta á staðinn til að undirrita með tilheyrandi kostnaði og umstangi.“

Hyggjast ekki rukka notendur í náinni framtíð

Langflestir notendur rafrænna skilríkja nota þau í síma en Auðkenni býður fólki einnig upp á að fá skilríkin á greiðslukort.

Aðspurður um það hvort til standi að rukka almenna notendur fyrir notkun á rafrænum skilríkjum segir Haraldur svo ekki vera.

„Við rukkum þjónustuveitendurna þannig að ef þú skráir þig inn hjá bankanum þínum með rafrænum skilríkjum þá er hann rukkaður samkvæmt gjaldskrá. Tekjurnar koma frá þeim sem eru að bjóða þjónustuna.“

Fréttin hefur verið uppfærð: Í upphaflegri útgáfu sagði að Auðkenni hafi byrjað að innheimta gjöld af símafyrirtækjum vegna rafrænna skilríkja árið 2005. Hið rétta er að til skoðunar var að hefja gjaldtöku en horfið var frá þeim áformum.