Starfsmenn matvöruverslanna í Seattle munu brátt fá launahækkun sem mun gilda út heimsfaraldur COVID-19. Lagasetning þess efnis var samþykkt í borgarstjórn borgarinnar í gær en með henni er matvöruverslunum gert að greiða starfsmönnum sínum áhættuþóknun fyrir að starfa í framlínunni.
Í umfjöllun Seattle Times um málið kemur fram að löggjöfin hafi verið kynnt í síðustu viku. Hún naut fulltingis þrjá fjórðu borgarfulltrúa og tók því gildi strax. Jenny Durkan, borgarstjóri Seattle, segir lagasetninguna mikilvægt skref í átt að bata borgarinnar.
Með lagasetningunni fær hver starfsmaður fjórum Bandaríkjadollurum hærri laun á tímann en allajafna. Nýja lagasetningin nær til matvöruverslana þar sem starfa fleiri en 500 starfsmenn á heimsvísu og til búða sem eru stærri en tíu þúsund fermetrar.
Kemur fram í umfjöllun Seattle Times að þær búðir sem þegið hafa neyðaraðstoð borgarinnar, sem fyrst var boðið upp á í mars síðastliðnum, muni þurfa að lúta nýju reglunum. Stefnan verður endurskoðuð á fjögurra mánuða fresti.
Hafði borgarfulltrúinn Teresa Mosqueda orð á því að borgarstjórn Seattle hefði hist á fjarfundum síðan í mars vegna heimsfaraldursins. Starfsfólk matvöruverslanna gæti ekki unnið heima við, líkt og svo margir aðrir.
„Þau hafa farið í vinnuna alla daga og við kunnum að meta þau,“ segir Teresa. „Starfsfólk matvöruverslanna er í mikilli áhættu á því að fá COVID smit og það minnsta sem við getum gert er að veita þeim vörn, aðgang að bóluefnum og nú, hefur borgarstjórn búið svo um hnútana að þau fái áhættuþóknun.“
Þá kemur fram í umfjöllun miðilsins að hlutabréf í verslunarrisum lítk og Walmart, Amazon og Target hefðu snarhækkað í faraldrinum. „Það er búist við því að starfsfólk matvöruverslanna geri meira en nokkurn tímann fyrr,“ hefur miðillinn eftir Faye Guenther, forseta samtaka starfsfólks í þjónustu.